Hreinsunarvatn

1 Drottinn talaði til Móse og Arons og sagði: 2 „Þetta er lagaákvæði sem Drottinn hefur sett: Segðu Ísraelsmönnum að færa þér gallalausa, rauða kú án lýta sem enn hefur ekki borið ok. 3Þið skuluð fá hana Eleasar presti. Farið skal með hana út fyrir herbúðirnar og henni slátrað frammi fyrir honum. 4 Þá skal Eleasar taka nokkuð af blóði hennar með fingri sínum og stökkva því sjö sinnum að framhlið samfundatjaldsins. 5 Síðan skal brenna kúna í augsýn hans. Húðin, kjötið, blóðið og gorið skal brennt. 6 Þá skal presturinn taka sedrusvið, ísóp og skarlatsrautt band og kasta því á bálið sem kýrin er brennd á. 7 Því næst skal presturinn þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni og má þá ganga inn í herbúðirnar en hann er þó óhreinn til kvölds. 8Sá sem brenndi kúna skal einnig þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni og er hann einnig óhreinn til kvölds.
9 Hreinn maður skal síðan safna öskunni saman og koma henni fyrir á hreinum stað utan við herbúðirnar. Söfnuður Ísraels skal varðveita hana svo að hægt verði að hafa hana í syndahreinsunarvatni. 10 En sá sem safnaði saman ösku kýrinnar skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvölds. Þetta skal vera ævarandi regla fyrir Ísraelsmenn og aðkomumanninn sem hlýtur hæli á meðal þeirra.
11 Sérhver, sem snertir lík manns, verður óhreinn í sjö daga. 12 Hann skal hreinsa sig af synd á þriðja og sjöunda degi og verður þá hreinn. En ef hann hreinsar sig ekki af synd verður hann ekki hreinn. 13 Sérhver, sem snertir lík, líkama látins manns, án þess að hreinsa sig af synd, saurgar með því bústað Drottins. Sá maður skal upprættur úr Ísrael af því að hreinsunarvatni hefur ekki verið stökkt á hann. Hann er óhreinn, saurgun hans loðir við hann áfram.