Eftir Thomas Godsk Larsen

Frétt frá frændum vorum Dönum: Biblían 2020

 

Guðfræðingurinn og hebreskusérfræðingurinn Søren Holst hefur tekið þátt í að þýða Biblíuna 2020. Um þessar mundir setur hann Danmörku á hliðina með erindi sínu „Adam og Eva — og Patrekur frá Herlev“, þar sem hann greinir frá því hvernig Biblían er þýdd fyrir nýja lesendur.

Søren Holst er einn hinna 13 fyrirlesara sem um þessar mundir flytja erindi um nýju Biblíuna á nútímadönsku, sem kemur út í mars 2020. Hann hefur meðal annars þýtt Jobsbók, sem hann fjallar um í einu erinda sinna, og svo flytur hann erindið Adam og Eva — og Patrekur frá Herlev, sem fjallar um það í meginatriðum, fyrir hverja er þýtt, þegar texta er snúið yfir á nútímadönsku:

„Við náðum í hann Patrek í Herlev, 14 ára að aldri, ófermdan og allsendis ófróðan um Biblíuna. Við fræddum hann þannig út frá hans eigin forsendum. Þannig gátum við spurt okkur sjálf í verkferlinu: Mun Patrekur geta skilið þetta? Og ef ekki, urðum við að láta vaða á ný.“

Tungumálið má ekki vera mergurinn málsins

Rit Gamla testamentisins í Biblíunni 2020 hafa orðið til í samstarfi guðfræðings, sem er vel að sér í hebresku annars vegar og dönskumanns hins vegar, sem eftir yfirlestur handrits hafa komið sér saman um að tungutakið á að vera í aðalhlutverki, hvað sem ritningunum líður.

„Þessi samvinna hefur úrslitaáhrif, þegar um er að ræða nútímadönsku sem Patrekur skilur. Þetta er annars konar Biblía, sem hér er um að ræða, þar eð tungumálið er ekki mergurinn málsins. Þannig lifnar frásagan við og lætur ekki truflast af því að Patrekur og allir hinir lesendurnir skilja ekki orðin.“

„Og þetta hefur ekki verið auðvelt verkefni,“ segir Søren Holst.

„Það hefur verið áskorun að finna orð og orðfæri, sem við teljum að nýir lesendur muni skilja — því að sjálf komum við ekki alveg að tómum kofanum, þegar um biblíulestur er að ræða. Þar kemur hvort tveggja til, sú áskorun, hvernig við þýðum miðlægt, guðfræðilegt tungutak og orð, sem ekki eiga sér stoð í Biblíunni. Það eru til dæmis orð og myndmál, sem tilheyra landbúnaðarsamfélagi, sem á öllum sviðum er svo órafjarri þeim raunveruleika, sem við mætum í Herlev í dag.“

„Skrifaðu bara það sem stendur!“

„Biblíuþýðing er líka alltaf túlkun,“ segir Søren Holst. Samt stendur hann einatt frammi fyrir þeirri spurningu, hvers vegna þýðandinn skrifi ekki bara það sem stendur:

„Þetta er nokkuð sem okkur þykir miður við skjátextana í sjónvarpinu. „Skrifaðu nú bara það sem þau segja,“ segjum við. En málið er sjaldan alveg svona einfalt. Jafnvel þótt auðvitað séu gerðar góðar og lakari tilraunir, er alltaf eitthvað, sem glatast við þýðinguna. Hvað sem öðru líður getum við búist við því að þýðingar, einnig biblíuþýðingar, verði alltaf (svolítið) rangar,“ segir hann og útskýrir það nánar:

„Hebreska Biblíunnar er sérstök áskorun, því að við erum ennþá óviss um nákvæma merkingu ákveðinna orðhluta. Jobsbók hefur svo sannarlega verið strembin, þar sem hún er rituð á torskildustu og merkilegustu hebreskunni í allri Biblíunni.“

Søren Holst hefur þýtt Jobsbók í Biblíunni 2020. Hún kom út í sérriti árið 2017 á vegum Biblíuforlagsins, þýðing sem hlaut mjög góða dóma.

„Það borgar sig að byrja fremst“

Søren Holst myndskreytir ríkulega fyrirlestra sína um Biblíuna 2020 með dæmum úr vinnu sinni með þekktar frásagnir úr Biblíunni. Þeirri spurningu, hvað hann vonar að áheyrendurnir taki með sér heim, svarar hann þannig:

„Að það sé á hreinu að það þarf að þýða alveg frá byrjun með reglulegu millibili. Tungumálið breytist, heimurinn breytist. Við munum aldrei geta búið til fullkomna þýðingu, og við munum aldrei geta ráðið tölvu til slíks verks. Þýðing er hrein og bein listgrein. Hún krefst mannlegrar þekkingar, innsýnar og tilfinningar fyrir tungumáli, ef það á að geta tekist. Og svo vona ég vissulega að fleiri öðlist innblástur til þess að lesa í Biblíunni. Segja má, að það sé nú markmiðið með þessu öllu saman.“

 

Íslensk þýðing: Þorgils Hlynur Þorbergsson guðfræðingur