Hlutur Levítanna

20 Drottinn sagði við Aron:
„Þú skalt ekki hljóta neinn erfðahlut í landi þeirra og enga jarðeign meðal þeirra. Ég er jarðeign þín og erfðahlutur meðal Ísraelsmanna. 21 Sjá, ég gef Levítunum alla tíund í Ísrael sem erfðahlut. Það er gjald fyrir þá þjónustu sem Levítarnir inna af hendi, þjónustuna við samfundatjaldið. 22 Ísraelsmenn skulu ekki koma nærri samfundatjaldinu framar því að þeir mundu syndga og deyja. 23 En Levítarnir skulu gegna þjónustu við samfundatjaldið og bera þá sekt sem þeir baka sér. Það skal vera ævarandi ákvæði frá kyni til kyns. En þeir skulu ekki hljóta erfðahlut á meðal Ísraelsmanna 24 því að ég hef gefið Levítunum tíund Ísraelsmanna sem þeir færa Drottni að gjöf sem erfðahlut. Þess vegna hef ég sagt við þá: Þið fáið engin óðul meðal Ísraelsmanna.“

Tíund

25 Drottinn talaði til Móse og sagði:
26 „Gefðu Levítunum þessi fyrirmæli: Þegar þið takið við tíundinni frá Ísraelsmönnum, sem ég hef gefið ykkur sem erfðahlut frá þeim, skuluð þið færa Drottni tíunda hlutann af tíundinni sem gjöf. 27 Það skal reiknað ykkur sem gjöf af korni af þreskivelli og því sem fyllir vínpressuna. 28Þannig skuluð þið gjalda Drottni af öllum tíundum sem þið eigið rétt á og þið fáið frá Ísraelsmönnum. Þið skuluð færa Aroni presti gjöf til Drottins. 29 Af öllum gjöfum, sem ykkur hlotnast, skuluð þið færa Drottni hluta af því besta sem helgigjöf.
30 Enn fremur skaltu segja við þá: Þegar þið hafið fært það besta af tíundinni að hlut reiknast það Levítunum eins og hlutur af þreskivelli og vínpressu. 31 Þið megið neyta þess með fjölskyldu ykkar hvar sem er því að það eru laun ykkar, endurgjald fyrir þjónustuna við samfundatjaldið. 32 Af því að þið færið fram það besta sem gjöf munuð þið ekki taka á ykkur neina synd og ekki vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna og munuð því ekki deyja.“