17. kafli

27 Ísraelsmenn sögðu við Móse: „Við deyjum, við förumst, við förumst allir. 28 Sérhver sem kemur nærri bústað Drottins hlýtur að deyja. Eigum við þá allir að líða undir lok og deyja?“

18. kafli

Störf presta og Levíta

1 Drottinn sagði við Aron:
„Þú sjálfur, synir þínir og fjölskylda þín með þér verðið sekir vegna misgjörða gegn helgidóminum. Þú sjálfur og synir þínir með þér verðið sekir vegna misgjörða í prestsembætti ykkar. 2 Þú skalt láta bræður þína, ættbálk Leví, fjölskyldu þína, ganga fram með þér og þjóna þér þegar þú og synir þínir eru frammi fyrir sáttmálstjaldinu. 3 Þeir skulu fylgja fyrirmælunum um þjónustuna við þig og þjónustuna við allt tjaldið, 4 hins vegar mega þeir hvorki koma nálægt hinum heilögu áhöldum né altarinu svo að þeir deyi ekki og þið með þeim. 5 Ef þið fylgið fyrirmælunum um þjónustuna við helgidóminn og altarið kemur reiðin ekki framar yfir Ísraelsmenn. 6 Sjá, ég greini sjálfur bræður ykkar, Levítana, frá öðrum Ísraelsmönnum og gef ykkur þá. Þeir eru gefnir Drottni til að gegna þjónustu við samfundatjaldið. 7 En þú og synir þínir með þér skuluð þjóna sem prestar í öllu sem snertir altarið og það sem er innan við fortjaldið, þar skuluð þið gegna þjónustu ykkar. Ég fæ ykkur prestsembættið að gjöf. Sérhver óviðkomandi, sem kemur nærri, skal líflátinn.“

Hlutur prestanna

8 Drottinn sagði við Aron:
„Hér með fel ég þér umsjón með fórnargjöfum sem mér hafa verið færðar. Ég fæ þér þær sem hluta þinn af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna og síðan sonum þínum. Þetta er ævarandi ákvæði.
9 Þú skalt fá þetta af hinum háheilögu gjöfum sem ekki á að brenna: Allt sem þeir bera fram sem kornfórnir, syndafórnir og sektarfórnir og gefa mér, það er háheilagt og skal heyra þér til og sonum þínum. 10 Þú skalt neyta þess á háheilögum stað. Allir, sem eru karlkyns, mega neyta þess, það skal vera þér heilagt. 11 Þú skalt einnig fá hluta af gjöfum þeirra, öllum veififórnum Ísraelsmanna. Þetta er gefið þér, sonum þínum og dætrum með þér. Þetta er ævarandi ákvæði. Sérhver, sem er hreinn í fjölskyldu þinni, má neyta þess.
12 Ég gef þér allt það besta af olíunni og allt það besta af víninu og korninu, það besta af því sem þeir gefa Drottni. 13 Þú skalt fá frumgróðann af öllu því sem vex í landinu og þeir færa Drottni. Sérhver, sem er hreinn í fjölskyldu þinni, má neyta þess. 14 Þú skalt fá allt sem er helgað banni í Ísrael. 15 Þú skalt fá allt sem opnar móðurlíf, af öllu því holdi sem menn færa Drottni, bæði menn og skepnur. Þú verður samt að leysa frumburði manna og frumburði óhreinna dýra. 16 Þú skalt leysa þá sem á að leysa þegar þeir eru mánaðargamlir og eldri. Mat þitt skal vera fimm siklar miðað við þyngd helgidómssikils, tuttugu gerur í sikli. 17 En frumburði nauta, sauðfjár og geita máttu ekki leysa. Þeir eru heilagir. Þú skalt stökkva blóði þeirra á altarið og mör þeirra skaltu brenna sem eldfórn, sem Drottni þekkan ilm. 18 En þú skalt fá kjöt þeirra, eins og bringuna sem veifað er og hægra lærið.
19 Allar helgigjafir, sem Ísraelsmenn færa Drottni, hef ég gefið þér og sonum þínum og dætrum með þér. Þetta er ævarandi ákvæði, ævarandi sáttmáli, helgaður með salti, við þig og niðja þína fyrir augliti Drottins.“