Stafur Arons

16 Drottinn talaði til Móse og sagði:
17 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og fáðu hjá þeim tólf stafi, einn staf frá hverri fjölskyldu, einn staf frá hverjum höfðingja ættbálka þeirra. Þú skalt skrifa nafn hvers þeirra á staf hans 19 og nafn Arons á staf Leví því að einn stafur skal koma fyrir höfðingja hvers ættbálks. 19 Leggðu þá síðan niður í samfundatjaldinu frammi fyrir sáttmálstákninu þar sem ég mæti ykkur. 20 Stafur þess manns sem ég vel mun þá laufgast. Þannig ætla ég að þagga niður kurr Ísraelsmanna gegn mér og mögl þeirra gegn ykkur.“
21 Móse talaði því næst við Ísraelsmenn og allir höfðingjar þeirra fengu honum tólf stafi, einn staf fyrir höfðingja hvers ættbálks. Stafur Arons var á meðal stafa þeirra. 22 Síðan lagði Móse stafina niður fyrir augliti Drottins í sáttmálstjaldinu.
23 Þegar Móse kom til sáttmálstjaldsins daginn eftir var stafur Arons, stafur Leví ættar, laufgaður. Á honum höfðu sprottið blöð og blóm og hann bar þroskaðar möndlur. 24 Móse bar þá alla stafina frá augliti Drottins út til allra Ísraelsmanna. Þegar þeir sáu þá tók hver sinn staf.
25 En Drottinn sagði við Móse: „Farðu aftur með staf Arons fram fyrir sáttmálstáknið. Þar skal hann varðveittur sem tákn fyrir hina uppreisnargjörnu. Þar með skal kurri þeirra lokið svo að þeir deyi ekki.“ 26 Móse gerði í einu og öllu eins og Drottinn hafði boðið honum, það gerði hann.