Biblíulestur 30. desember – 4Mós 16.25-17.15

2019-06-12T16:53:49+00:00Mánudagur 30. desember 2019|

16. kafli

25 Móse reis þá á fætur og gekk til Datans og Abírams en öldungar Ísraels fylgdu honum. 26 Hann ávarpaði söfnuðinn og sagði: „Farið nú frá tjöldum þessara guðlausu manna og snertið ekkert af því sem þeir eiga svo að ykkur verði ekki tortímt vegna allra synda þeirra.“ 27 Þá fóru þeir burt frá svæðinu umhverfis bústað Kóra, Datans og Abírams. Datan og Abíram höfðu gengið út og stóðu við dyr tjalda sinna ásamt konum sínum og börnum, stórum og smáum. 28 Þá sagði Móse: „Af þessu má ykkur vera ljóst að Drottinn hefur sent mig til að vinna öll þessi verk en ég hef ekki unnið þau að eigin geðþótta. 29 Ef þetta fólk deyr á sama hátt og allir aðrir menn og fyrir því fer eins og öðrum mönnum, þá var það ekki Drottinn sem sendi mig. 30 En birti Drottinn sköpunarmátt sinn og jörðin opni gin sitt og gleypi þá og allt sem þeir eiga svo að þeir fari lifandi niður til heljar, þá munuð þið skilja að þessir menn hafa smánað Drottin.“
31 Um leið og hann lauk máli sínu klofnaði akurinn undir fótum þeirra 32 og jörðin opnaði gin sitt og gleypti þá, hús þeirra og alla þá sem heyrðu Kóra til ásamt öllum eigum þeirra. 33 Þeir og allt þeirra fólk fór lifandi niður til heljar. Þegar jörðin huldi þá hafði þeim verið tortímt úr söfnuðinum. 34 Allur Ísrael, sem var umhverfis þá, flýði burt við óp þeirra því að þeir hugsuðu: „Vonandi gleypir jörðin okkur ekki.“
35 Eldur hafði gengið út frá Drottni og gleypt þá tvö hundruð og fimmtíu menn sem höfðu fært fram reykelsi. [

17. kafli

1 Drottinn talaði til Móse og sagði:
2 „Segðu Eleasar, syni Arons prests, að taka pönnurnar upp úr öskunni því að þær eru heilagar. Dreifið síðan glóðinni. 3 En eldpönnur þeirra sem greiddu synd sína með lífi sínu skal hamra í þunnar plötur og klæða með þeim altarið því að þeir báru þær fram fyrir Drottin og þær eru því heilagar.“
4 Eleasar prestur tók þá eirpönnurnar sem bornar höfðu verið fram af þeim sem brunnu. Þær voru síðan hamraðar og altarið klætt með þeim. 5 Þær voru Ísraelsmönnum áminning um það að enginn óviðkomandi, sem ekki er af ætt Arons, má ganga fram og brenna reykelsi fyrir augliti Drottins svo að ekki fari eins fyrir honum og Kóra og söfnuði hans. Eleasar gerði það sem Drottinn hafði boðað fyrir munn Móse.
6 Daginn eftir möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni og sagði: „Þið hafið deytt þjóð Drottins.“ 7Þegar söfnuðurinn safnaðist saman gegn Móse og Aroni og sneri sér að samfundatjaldinu huldi skýið tjaldið og dýrð Drottins birtist. 8 Móse og Aron gengu þá fram fyrir samfundatjaldið 9 og Drottinn talaði til Móse og sagði: 10„Yfirgefið þennan söfnuð því að ég ætla að eyða honum á augabragði.“ Þeir létu þá fallast fram á ásjónur sínar 11og Móse sagði við Aron: „Taktu eldpönnuna af altarinu, leggðu á hana reykelsi og farðu í skyndi til safnaðarins og friðþægðu fyrir hann því að reiði er þegar gengin út frá augliti Drottins og drepsótt hafin.“ 12 Þá tók Aron pönnuna eins og Móse hafði boðið og hljóp inn í söfnuðinn miðjan. Plágan var þegar hafin meðal fólksins en hann lagði reykelsi á pönnuna og friðþægði fyrir fólkið. 13 Þegar hann gekk milli hinna dauðu og hinna lifandi linnti plágunni. 14 En fjórtán þúsund og sjö hundruð dóu úr plágunni auk þeirra sem dóu vegna máls Kóra. 15 Því næst sneri Aron aftur til Móse að dyrum samfundatjaldsins þar sem plágunni hafði linnt.

Title

Fara efst