1Hælstu ekki um af morgundeginum
því að þú veist ekki hvað dagurinn ber í skauti sínu.
2Láttu aðra hrósa þér, ekki þinn eigin munn,
annarra varir, ekki þínar eigin.
3Steinar eru þungir og sandurinn sígur í
en gremja afglapans er þyngri en hvort tveggja.
4Heiftin er grimm og reiðin er svæsin
en hver fær staðist öfundina?
5Betri eru átölur í hreinskilni
en ást sem leynt er.
6Vel meint eru vinar sárin
en viðbjóðslegir fjandmanns kossar.
7Saddur maður treður hunang undir fótum
en hungruðum manni er remman sæt.
8Eins og fugl, floginn úr hreiðri,
svo er maður sem flúinn er af heimili sínu.
9Ilmolía og reykelsi gleðja hjartað
en indælli er vinur en ilmandi viður.
10Yfirgefðu ekki vin þinn né vin föður þíns
og gakktu ekki í hús bróður þíns á óheilladegi þínum.
Betri er granni í grennd en bróðir í fjarska.
11Öðlastu visku, sonur minn, og gleddu hjarta mitt
svo að ég geti svarað þeim orði sem smána mig.
12Vitur maður sér ógæfuna og felur sig
en einfeldningar halda áfram og gjalda þess.
13Taktu skikkjuna af þeim sem hefur gengið í ábyrgð fyrir ókunnugan,
taktu veð af þeim sem hefur gengið í ábyrgð fyrir framandi konu.
14Blessi maður náunga sinn snemma morguns með háreysti
skal það metið sem formæling.