Lagður í jötu
1 En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. 2Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. 3 Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
4 Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, 5 að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. 6 En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. 7 Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
Frelsari fæddur
8 En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. 9 Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir 10 en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: 11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
14Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.