27 Syndgi einhver af vangá skal hann færa veturgamla geit í syndafórn. 28 Prestur skal friðþægja frammi fyrir augliti Drottins fyrir þann sem yfirsjón hefur hent og varð sekur af vangá og honum verður fyrirgefið.
29 Sömu lög um yfirsjónir skulu gilda fyrir þá Ísraelsmenn sem fæddir eru í landinu og aðkomumann sem nýtur verndar á meðal þeirra. 30 En sá sem syndgar af ásetningi, [ hvort sem hann er innborinn eða aðkomumaður, hefur smánað Drottin: Sá maður skal upprættur úr þjóð sinni. 31 Hann hefur smánað orð Drottins og brotið boð hans: Sá maður skal upprættur, sekt hans hvílir á honum.“

Brot gegn hvíldardagsboðinu

32 Þegar Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni stóðu þeir einhverju sinni mann að því að safna viði á hvíldardegi. 33Þeir sem stóðu hann að verki leiddu hann fyrir Móse, Aron og allan söfnuðinn. 34 Þeir settu hann í varðhald því að enn hafði ekki verið ákveðið hvað gera skyldi við hann.
35 Þá sagði Drottinn við Móse:
„Þennan mann verður að lífláta, allur söfnuðurinn skal grýta hann utan við herbúðirnar.“ 36 Allur söfnuðurinn fór þá með hann út fyrir herbúðirnar og grýtti hann til bana eins og Drottinn hafði boðið Móse.

Skúfar á klæðum Ísraelsmanna

37 Drottinn talaði til Móse og sagði:
38 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu við þá að þeir skuli gera skúfa á klæðafald sinn kynslóð eftir kynslóð. Þið skuluð hafa purpurabláan þráð í hverjum skúfi á klæðafaldinum 39 og hann skal tilheyra skúfinum. Þegar þið lítið á þá eigið þið að minnast allra boða Drottins og fylgja þeim en ekki elta það sem hjarta ykkar og augu girnast og þið hórist með. 40 Þannig eigið þið að minnast allra boða minna og fylgja þeim svo að þið verðið heilagir fyrir Guði ykkar. 41 Ég er Drottinn, Guð ykkar, sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi til þess að vera ykkar Guð. Ég er Drottinn, Guð ykkar.“