Lög um fórnir

1 Drottinn talaði til Móse og sagði:
2 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu við þá: Þegar þið komið til landsins, sem þið munuð setjast að í og ég mun gefa ykkur, 3 og þið ætlið að undirbúa eldfórn til Drottins, brennifórn eða sláturfórn til að efna heit eða sem sjálfviljafórn eða fórn á hátíðum ykkar til að færa Drottni þekkan ilm af nauti eða sauði, 4 skal hver sem ber fram fórnargjöf sína til Drottins bera fram tíunda hluta úr efu af fínu mjöli, blönduðu fjórðungi úr hín af olíu í kornfórn. 5Þú skalt færa fjórðung úr hín af víni í dreypifórn með hverju lambi sem borið er fram sem brennifórn eða sláturfórn. 6 Hins vegar skaltu færa í kornfórn með hverjum hrút tvo tíundu hluta úr efu af fínu mjöli, blönduðu þriðjungi hínar af olíu. 7 Einnig skaltu bera fram þriðjung hínar af víni í dreypifórn. Þetta er Drottni þekkur ilmur. 8 En þegar þú býrð naut til brennifórnar eða sláturfórnar til að efna heit eða sem heillafórn til Drottins 9 skaltu bera fram í kornfórn þrjá tíundu úr efu af fínu mjöli, blönduðu hálfri hín af olíu. 10 Einnig skaltu færa fram hálfa hín af víni í dreypifórn. Þetta er eldfórn, Drottni þekkur ilmur. 11 Þannig skal farið með sérhvert naut, sérhvern hrút og sérhvert lamb eða kið. 12 Þannig skuluð þið fara með sérhvert dýr, hversu mörg sem þau kunna að vera.
13 Sérhver innfæddur maður skal fara eftir þessu þegar hann færir Drottni eldfórn sem þekkan ilm. 14 En þegar aðkomumaður nýtur verndar meðal ykkar eða einhver, sem hefur dvalið hjá ykkur í marga ættliði, færir Drottni eldfórn sem þekkan ilm skal hann fara eins að og þið. 15 Ein og sömu lög gilda fyrir ykkur og aðkomumann sem nýtur verndar, það er ævarandi lagaákvæði sem gildir frá kyni til kyns. 16 Sömu lög og sömu reglur gilda fyrir ykkur og aðkomumann sem nýtur verndar hjá ykkur.“
17 Drottinn talaði til Móse og sagði:
18 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu við þá: Þegar þið komið inn í landið, sem ég er í þann veginn að leiða ykkur inn í 19 og þið eruð farnir að eta brauð landsins, skuluð þið færa Drottni fórnargjöf. 20 Af fyrsta brauðdeigi ykkar skuluð þið færa Drottni köku að gjöf. Þannig skuluð þið fórna henni, eins og fórnargjöfinni af þreskivellinum. 21 Þið skuluð bera hana fram sem gjöf til Drottins frá kyni til kyns af fyrsta brauðdeigi ykkar.

Óviljaverk

22 Þegar ykkur verður það á að halda ekki öll þau boð sem Drottinn lagði fyrir Móse, 23 allt sem Drottinn hefur boðið ykkur fyrir munn Móse, frá þeim degi er Drottinn bauð það og síðan frá kyni til kyns, 24 skal allur söfnuðurinn búa naut til brennifórnar. Ef yfirsjónin varð án vitneskju safnaðarins skal allur söfnuðurinn búa ungneyti í brennifórn sem þekkan ilm fyrir Drottin. Kornfórn, sem heyrir til, og dreypifórnin skal vera samkvæmt reglunum og að auki geithafur í syndafórn. 25 Presturinn skal friðþægja fyrir allan söfnuð Ísraelsmanna. Þá verður þeim fyrirgefið því að þetta var yfirsjón og þeir hafa fært fram fórnargjöf sína sem eldfórn til Drottins og fært syndafórn sína fram fyrir auglit Drottins vegna yfirsjónar sinnar. 26 Öllum söfnuði Ísraelsmanna og aðkomumanninum, sem nýtur verndar hjá ykkur, verður fyrirgefið því að yfirsjónin snerti allan söfnuðinn.