26 Drottinn talaði til Móse og Arons og sagði:
27 „Hversu lengi á þessi vondi söfnuður að mögla gegn mér? Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna gegn mér. 28Segðu við þá: Svo sannarlega, sem ég lifi, segir Drottinn, mun ég fara með ykkur eins og þið hafið sjálfir talað í eyru mín að ég muni gera. 29 Lík ykkar munu liggja eftir hér í þessari eyðimörk, ykkar allra sem voruð taldir, ykkar allra með tölu, tuttugu ára og eldri, lík ykkar sem hafið möglað gegn mér. 30 Enginn ykkar skal koma inn í landið, sem ég sór með upplyftri hendi að þið skylduð búa í, enginn nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson. 31 En börn ykkar, sem þið sögðuð að yrðu tekin herfangi, mun ég leiða þangað. Þau munu kynnast landinu sem þið hafið forsmáð 32 en lík ykkar munu liggja eftir hér í þessari eyðimörk. 33 Synir ykkar verða hjarðmenn í eyðimörkinni í fjörutíu ár og gjalda fráfalls ykkar þar til lík ykkar allra liggja í eyðimörkinni. 34 Þið könnuðuð landið í fjörutíu daga og þið skuluð gjalda misgjörðar ykkar í fjörutíu ár, eitt ár fyrir hvern dag. Þannig skuluð þið komast að raun um hvað það þýðir að fá mig á móti sér. 35 Ég, Drottinn, hef talað. Sannarlega mun ég fara svona með þennan vonda söfnuð sem gerði samblástur gegn mér: Hér í þessari eyðimörk skulu þeir láta lífið, hér skulu þeir deyja.“
36 Mennirnir, sem Móse sendi til að kanna landið, sneru aftur og æstu allan söfnuðinn til að mögla gegn honum með því að rægja landið. 37 Þessir menn, sem rægt höfðu landið, dóu. Þeir biðu bráðan bana frammi fyrir augliti Drottins. 38 En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson héldu einir lífi þeirra manna sem farið höfðu til að kanna landið.
39 Móse skýrði öllum Ísraelsmönnum frá þessu og öll þjóðin varð mjög harmþrungin. 40 Þeir voru snemma á fótum næsta morgun og vildu fara upp í hæsta fjalllendið og sögðu: „Við erum tilbúnir. Nú höldum við upp til þess staðar sem Drottinn hefur talað um því að við höfum syndgað.“ 41 En Móse sagði: „Hvers vegna ætlið þið að brjóta boð Drottins? Það mun ekki takast. 42 Farið ekki upp eftir því að Drottinn er ekki á meðal ykkar svo að þið bíðið ekki ósigur fyrir fjandmönnum ykkar. 43 Því að Amalekítar og Kanverjar verða þarna fyrir og þið munuð falla fyrir sverði. Fyrst þið hafið snúið baki við Drottni verður Drottinn ekki með ykkur.“
44 En þeir þrjóskuðust við og héldu upp í hæsta fjalllendið. En sáttmálsörk Drottins og Móse viku ekki úr herbúðunum. 45 Amalekítar og Kanverjar, sem bjuggu í fjalllendinu, komu niður og sigruðu þá og tvístruðu þeim alla leið til Horma.