Þjóðin möglar
1 Þá tók allur söfnuðurinn að kveina hástöfum og fólkið grét þessa nótt og allir Ísraelsmenn mögluðu gegn Móse og Aroni. 2 Allur söfnuðurinn sagði við þá: „Við vildum að við hefðum dáið í Egyptalandi eða í þessari eyðimörk. 3Hvers vegna ætlar Drottinn að fara með okkur til þessa lands til að fella okkur með sverði? Konur okkar og börn verða þá tekin herfangi. Væri okkur ekki betra að snúa aftur til Egyptalands?“ 4 Síðan sögðu þeir sín á milli: „Við skulum velja okkur annan leiðtoga og snúa aftur til Egyptalands.“
5 Þá féllu Móse og Aron fram á ásjónur sínar frammi fyrir öllum söfnuði Ísraelsmanna. 6 Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson, sem voru meðal þeirra sem höfðu kannað landið, rifu klæði sín, 7 ávörpuðu allan söfnuð Ísraelsmanna og sögðu: „Landið, sem við fórum um til að kanna, er afar gott. 8 Hafi Drottinn velþóknun á okkur leiðir hann okkur inn í þetta land og gefur okkur það. Landið flýtur í mjólk og hunangi. 9 En gerið ekki uppreisn gegn Drottni. Óttist ekki fólkið í landinu því að það mun reynast okkur auðveld bráð. Skugginn sem verndaði það er horfinn en Drottinn er með okkur. Óttist það ekki.“ 10 Þegar allur söfnuðurinn hótaði að grýta þá birtist dýrð Drottins öllum Ísraelsmönnum við samfundatjaldið.
Móse biður fyrir fólkinu
11 Drottinn sagði við Móse:
„Hversu lengi á þessari þjóð að leyfast að fyrirlíta mig? Hversu lengi geta þeir neitað að trúa á mig þrátt fyrir öll táknin sem ég hef gert meðal þeirra? 12 Nú mun ég ljósta þá með drepsótt og hrekja þá burt. En þig mun ég gera að mikilli þjóð, öflugri en þessi er.“
13 Þá sagði Móse við Drottin: „Egyptar munu frétta að þú hafir með mætti þínum farið með þetta fólk hingað upp eftir burt frá þeim. 14 Þá munu þeir segja við íbúa þessa lands að þeir hafi heyrt að þú, Drottinn, hafir verið mitt á meðal þessarar þjóðar og þú, Drottinn, hafir birst fyrir augum þeirra og að ský þitt hafi verið yfir þeim, að þú hafir gengið á undan þeim í skýstólpa um daga og eldstólpa um nætur. 15 Ef þú nú deyðir allt þetta fólk munu þjóðirnar, sem hafa heyrt um þig, segja: 16 Af því að Drottinn gat ekki leitt þessa þjóð til landsins sem hann hafði heitið henni með eiði slátraði hann þjóðinni í eyðimörkinni. 17 En sýndu nú, Drottinn minn, hversu mikill máttur þinn er eins og þú hefur sjálfur sagt:
18Drottinn er seinn til reiði og gæskuríkur,
fyrirgefur misgjörðir og afbrot
en lætur hinum seka ekki óhegnt
heldur vitjar misgjörða feðranna á börnunum
í þriðja og fjórða lið.
19 Fyrirgefðu sekt þessa fólks af mikilli miskunn þinni eins og þú hefur fyrirgefið þessu fólki frá því í Egyptalandi og allt til þessa dags.“
20 Drottinn svaraði:
„Ég fyrirgef því vegna bænar þinnar. 21 En svo sannarlega sem ég lifi og öll jörðin er full af dýrð Drottins 22 skulu engir þeirra manna, sem hafa séð dýrð mína og táknin sem ég gerði í Egyptalandi og í eyðimörkinni og hafa nú reynt á þolinmæði mína tíu sinnum en ekki hlustað á boðskap minn, 23 engir þeirra skulu fá að sjá landið sem ég sór feðrum þeirra. Engir, sem hafa fyrirlitið mig, skulu sjá það. 24 En Kaleb þjón minn, sem hefur annan anda og fylgir mér í einu og öllu, mun ég leiða inn í landið sem hann fór til. Niðjar hans skulu taka það til eignar. 25 En Amalekítar og Kanverjar búa á sléttunni. Á morgun skuluð þið snúa við og leggja af stað inn í eyðimörkina í áttina að Sefhafinu.“