Biblíulestur 12. desember – 4Mós 11.16-35

2019-06-13T01:12:12+00:00Fimmtudagur 12. desember 2019|

16 Drottinn sagði við Móse:
„Veldu fyrir mig sjötíu menn úr hópi öldunga Ísraels sem þú veist að eru öldungar þjóðarinnar og eftirlitsmenn hennar. Þú skalt leiða þá að samfundatjaldinu og þar skulu þeir taka sér stöðu með þér. 17 Þá stíg ég niður og tala þar við þig og tek dálítið af andanum sem er yfir þér og legg yfir þá. Síðan skulu þeir bera þunga þjóðarinnar með þér svo að þú þurfir ekki að bera hann einn. 18 En þú skalt segja við þjóðina: Helgið ykkur fyrir morgundaginn. Þá skuluð þið fá kjöt að eta því að þið hafið kveinað í eyru Drottins og spurt: Hver gefur okkur kjöt að eta? Okkur leið vel í Egyptalandi. Drottinn mun því gefa ykkur kjöt að eta. 19 Þið skuluð ekki aðeins neyta þess einn dag eða tvo, fimm daga eða tíu eða tuttugu 20 heldur heilan mánuð þangað til þið þolið ekki lyktina af því og ykkur býður við því. Því að þið hafið hafnað Drottni sem býr mitt á meðal ykkar, grátið frammi fyrir augliti hans og spurt: Hvers vegna fórum við frá Egyptalandi?“
21 Móse svaraði: „Þjóðin, sem ég dvel með, er sex hundruð þúsund fótgangandi menn og þú hefur sagt: Ég skal gefa þeim kjöt að eta í heilan mánuð. 22 Er hægt að slátra handa þeim sauðfé og nautfé sem nægi þeim? Er hægt að safna saman öllum fiskum í sjónum handa þeim svo að það nægi?“
23 Drottinn sagði við Móse:
„Er hönd Drottins of stutt? Nú muntu komast að raun um hvort orð mitt rætist eða ekki.“
24 Móse gekk þá út og flutti fólkinu boðskap Drottins. Síðan valdi hann sjötíu af öldungum þjóðarinnar og lét þá taka sér stöðu umhverfis tjaldið. 25 Þá steig Drottinn niður í skýinu, ávarpaði hann og tók af andanum sem var yfir honum og lagði hann yfir öldungana sjötíu. Um leið og andinn hvíldi yfir þeim komust þeir í spámannlegan guðmóð en aðeins þetta eina sinn. [
26 Tveir menn urðu eftir í herbúðunum. Hét annar Eldad en hinn Medad. Andinn hvíldi einnig yfir þeim enda voru þeir meðal þeirra sem höfðu verið skráðir en höfðu ekki yfirgefið tjaldið. Þeir komust í spámannlegan guðmóð í herbúðunum. 27 Þá hljóp unglingur nokkur til, skýrði Móse frá þessu og sagði: „Eldad og Medad eru í spámannlegum guðmóði í herbúðunum.“ 28 Jósúa Núnsson, sem hafði þjónað Móse frá því í æsku, sagði: „Móse, herra minn, komdu í veg fyrir þetta.“ 29 Þá sagði Móse við hann: „Ertu afbrýðisamur mín vegna? Ég vildi að öll þjóð Drottins væri spámenn og að Drottinn legði anda sinn yfir hana.“
30 Síðan hélt Móse aftur til herbúðanna ásamt öldungum Ísraels.

Lynghænsn

31 Þá tók vindur frá Drottni að blása og hrakti á undan sér lynghænsni frá hafinu og varpaði þeim yfir herbúðirnar, dagleið í allar áttir frá búðunum og mynduðu þau um það bil tveggja álna þykkt lag á jörðinni. 32 Fólkið safnaði lynghænsnunum saman allan þann dag, alla nóttina og allan næsta dag. Sá sem minnstu safnaði safnaði tíu kómerum. Fólkið dreifði úr lynghænsnunum umhverfis herbúðirnar. 33 En á meðan kjötið var enn milli tanna þess, áður en fólkið hafði tuggið það, blossaði reiði Drottins upp gegn því og laust Drottinn það þungri plágu. 34 Þessi staður var nefndur Kibrót-Hattava [ því að þar voru hinir gráðugu grafnir.
35 Fólkið hélt frá Kibrót-Hattava til Haserót og var um kyrrt í Haserót.

Title

Fara efst