Þjóðin möglar í Tabera

1 Einhverju sinni tók fólkið að kvarta hástöfum við Drottin yfir mótlæti sínu. Þegar Drottinn heyrði þetta blossaði reiði hans upp og eldur Drottins kviknaði og eyddi ysta hluta herbúðanna. 2 Þá hrópaði fólkið til Móse og Móse bað til Drottins og dvínaði þá eldurinn.
3 Þessi staður var nefndur Tabera því að eldur Drottins hafði kviknað vegna þeirra.
4 Flakkararnir, sem höfðu safnast að þeim, fylltust græðgi. Þá tóku Ísraelsmenn aftur að barma sér og sögðu: „Hver getur gefið okkur kjöt? 5 Nú munum við eftir fiskinum sem við fengum fyrir ekkert í Egyptalandi, gúrkunum, melónunum, blaðlaukunum, laukunum og hvítlaukunum. 6 En nú erum við að örmagnast, ekkert er til. Manna er það eina sem við komum auga á.“
7 Manna líktist kóríanderfræi og leit út eins og bedolakkvoða. [ 8 Fólkið gekk um til að safna því saman og malaði það í handkvörn eða steytti það í morteli. Síðan sauð fólkið það í potti og gerði úr því kökur sem voru á bragðið eins og olíukökur. 9 Þegar dögg féll yfir herbúðirnar um nætur féll einnig manna.
10 Móse heyrði fólkið gráta, hvern ættbálk og hvern mann við dyr tjalds síns. Þá reiddist Drottinn mjög og féll Móse það illa.
11 Þá sagði Móse við Drottin:
„Hvers vegna leikur þú þjón þinn svo grátt? Hvers vegna finn ég ekki náð í augum þínum svo að ég rísi undir byrði alls þessa fólks. 12 Er ég sá sem var þungaður af öllu þessu fólki? Bar ég það í heiminn? Úr því að þú segir: Berðu þá í faðmi þér eins og fóstra ber brjóstmylking inn í landið sem þú sórst feðrum þeirra. 13 Hvaðan á ég að fá kjöt til að gefa öllu þessu fólki? Því að það grætur frammi fyrir mér og heimtar: Gefðu okkur kjöt að eta. 14 Einn rís ég ekki undir öllu þessu fólki því að það er of þungt fyrir mig. 15 En ef þú ætlar að fara svona með mig, deyð mig þá, finni ég náð í augum þínum svo að ég þurfi ekki að sjá böl mitt lengur.“