Lúðrarnir

1 Drottinn talaði til Móse og sagði:
2 „Gerðu tvo lúðra úr silfri. Þú skalt gera þá með drifnu smíði. Þú skalt nota þá til að kalla saman söfnuðinn og til að gefa hernum merki til brottfarar. 3 Þegar þið gefið merki með lúðraþyt skal allur söfnuðurinn koma saman hjá þér við dyr samfundatjaldsins. 4 Ef þið þeytið einu sinni skulu höfðingjarnir, æðstu höfðingjar Ísraels ætta, koma saman hjá þér. 5 Ef þið gefið merki með hvellum hljómi skulu hersveitirnar, sem tjalda austan megin, leggja af stað. 6 Ef þið gefið merki öðru sinni með hvellum hljómi skulu hersveitirnar, sem tjalda sunnan megin, leggja af stað. Þið skuluð gefa merki til brottfarar með lúðraþyt. 7 En þegar söfnuðurinn skal koma saman skuluð þið þeyta lúðrana en ekki hvellt.
8 Prestarnir, synir Arons, skulu þeyta lúðrana. Það skal vera þeim ævarandi lagaákvæði frá kyni til kyns.
9 Þegar þið haldið til orrustu gegn þeim sem þrengja að ykkur í landi ykkar og þið blásið í lúðrana verður ykkar minnst fyrir augliti Drottins, Guðs ykkar. Þá verður ykkur bjargað undan fjandmönnum ykkar.
10 Á gleðidögum ykkar og hátíðum og við upphaf mánaða skuluð þið þeyta lúðrana, einnig við brennifórnir og heillafórnir. Þeir munu minna á ykkur frammi fyrir augliti Guðs ykkar. Ég er Drottinn, Guð ykkar.“