Júdamenn herleiddir til Babýlonar

18 Foringi lífvarðarins tók einnig Seraja yfirprest til fanga, Sefanja prest, sem næstur honum gekk, og hliðverðina þrjá. 19 Úr borginni tók hann hirðmann þann sem hafði eftirlit með hermönnunum, fimm af nánustu þjónum konungs, sem enn voru í borginni, ritara hershöfðingjans, sem annaðist herkvaðningu, og sextíu alþýðumenn sem enn voru í borginni. 20 Nebúsaradan lífvarðarforingi tók þá höndum og fór með þá til Babýloníukonungs í Ribla. 21Konungur lét höggva þá til bana í Ribla í Hamathéraði. Þannig voru íbúar Júda fluttir í útlegð úr landi sínu.

Gedalía landstjóri í Júda

22 Nebúkadnesar Babýloníukonungur setti Gedalía, son Ahíkams Safanssonar, yfir það fólk sem eftir var í Júda og Nebúkadnesar hafði skilið eftir. 23 Þegar allir liðsforingjarnir og menn þeirra fréttu að Babýloníukonungur hefði skipað Gedalía landstjóra komu þeir til hans í Mispa. Það voru þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson frá Netófa og Jaasanja frá Maaka og menn þeirra. 24 Gedalía vann þeim og mönnum þeirra eið og sagði við þá: „Óttist ekki embættismenn Kaldea. Búið áfram í landinu og gangið Babýloníukonungi á hönd. Þá mun ykkur vegna vel.“
25 Í sjöunda mánuðinum bar svo til að Ísmael Netanjason, Elísamasonar, sem var af konungsættinni, kom við tíunda mann og hjó Gedalja til bana og þá Júdamenn og Kaldea sem voru hjá honum í Mispa. 26 Þá tók allt fólkið sig upp, ungir sem gamlir, ásamt herforingjunum og hélt til Egyptalands af ótta við Kaldea.

Jójakín náðaður

27 Á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, á tuttugasta og sjöunda degi í tólfta mánuði, árið sem Evíl Merodak varð konungur í Babýlon, náðaði hann Jójakín Júdakonung og sleppti honum úr fangelsinu. 28Hann sýndi honum velvild og vísaði honum til sætis ofar hinum konungunum sem voru hjá honum í Babýlon. 29Jójakín þurfti ekki að bera fangabúning framar og það sem hann átti ólifað sat hann til borðs með konungi. 30Meðan hann lifði veitti konungur Jójakín reglulega það sem hann þurfti sér til daglegs viðurværis.