23. Kafli

Jóahas Júdakonungur

31 Jóahas var tuttugu og þriggja ára þegar hann varð konungur og hann ríkti þrjá mánuði í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir frá Líbna. 32 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og forfeður hans höfðu gert.
33 Nekó faraó lét setja hann í fangelsi í Ribla í Hamathéraði svo að hann gæti ekki lengur ríkt í Jerúsalem. Hann lagði einnig nefskatt á landið, hundrað talentur silfurs og eina talentu gulls. 34 Því næst gerði Nekó faraó Eljakím Jósíason að konungi eftir Jósía, föður sinn, og breytti nafni hans í Jójakím. Faraó tók Jóahas með sér til Egyptalands og þar dó hann.

Jójakím Júdakonungur

35 Jójakím greiddi faraó silfrið og gullið en hann varð að leggja skatt á landið til þess að geta greitt faraó það sem hann krafðist. Hann lét innheimta silfrið og gullið af fólkinu í landinu, í samræmi við það sem lagt hafði verið á hvern um sig, og greiddi það síðan Nekó faraó.
36 Jójakím var tuttugu og fimm ára þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem ellefu ár. Móðir hans hét Sebúdda Pedajadóttir frá Rúma. 37 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og forfeður hans.

24. Kafli

1 Á dögum hans réðst Nebúkadnesar Babýloníukonungur gegn honum og varð Jójakím undirkonungur hans í þrjú ár. Þá söðlaði hann um og gerði uppreisn. 2 Drottinn sendi ræningjaflokka frá Kaldeu, Arameu, Móab og Ammón gegn Jójakím. Hann sendi þá gegn Júda til að eyða landið samkvæmt orði Drottins sem hann hafði flutt af munni þjóna sinna, spámannanna. 3 Þetta kom yfir Júda samkvæmt boði Drottins: Hann ætlaði að hrekja Júda frá augliti sínu vegna synda Manasse og allra illvirkjanna sem hann vann, 4 einkum vegna hins saklausa blóðs sem hann hafði úthellt. Hann fyllti Jerúsalem af saklausu blóði og það vildi Drottinn ekki fyrirgefa.
5 Það sem ósagt er af sögu Jójakíms og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga. 6 Jójakím var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum. Jójakín, sonur hans, varð konungur eftir hann.
7 Konungur Egyptalands fór enga herför framar úr landi sínu því að Babýloníukonungur hafði tekið allt landsvæðið frá Egyptalandsá að Efratfljóti sem áður hafði heyrt Egyptalandskonungi til.