25 Enginn konungur á undan honum hafði eins og hann snúið sér til Drottins af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum mætti sínum eins og lögmál Móse bauð. Og á eftir honum kom enginn honum líkur. 26 Samt lét Drottinn ekki af sinni logandi heift. Hún brann gegn Júda vegna allra þeirra illvirkja Manasse sem vakið höfðu reiði Drottins. 27Þess vegna sagði Drottinn: „Ég ætla einnig að hrekja Júda frá augliti mínu eins og ég hef hrakið Ísrael. Ég hafna Jerúsalem, þessari borg sem ég hef útvalið, og húsinu sem ég sagði um: Þar skal nafn mitt vera.“

Jósía deyr

28 Það sem ósagt er af sögu Jósía og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga.
29 Á hans dögum fór Nekó faraó, Egyptalandskonungur, gegn Assýríukonungi við Efratfljót. Jósía konungur fór gegn honum en Nekó drap hann við Megiddó jafnskjótt og hann sá hann. 30 Þjónar Jósía fluttu lík hans á vagni frá Megiddó til Jerúsalem og lögðu hann í gröf sína. Þá sótti fólkið í landinu Jóahas Jósíason og smurði hann til konungs eftir föður sinn.