15 Jósía lét einnig rífa altarið í Betel, fórnarhæðina sem Jeróbóam Nebatsson hafði látið gera, sá sem kom Ísrael til að syndga. Hann lét brenna fórnarhæðina, mylja steinana mélinu smærra og brenna stólpa Aséru.
16 Þegar Jósía sneri sér við og sá grafirnar, sem voru þar á fjallinu, sendi hann menn og lét sækja beinin úr gröfunum. Síðan brenndi hann þau á altarinu og afhelgaði það samkvæmt orði Drottins sem guðsmaðurinn hafði hrópað þegar hann boðaði þessa atburði. 17 Síðan spurði konungur: „Hvaða legsteinn er þetta sem ég sé þarna?“ Bæjarbúar svöruðu honum: „Þetta er gröf spámannsins sem kom frá Júda og hrópaði þau orð yfir altarinu í Betel sem þú hefur nú látið rætast.“ 18 Þá sagði konungur: „Látið hann hvíla í friði. Enginn skal hreyfa við beinum hans.“ Þeim var þá hlíft ásamt beinum spámannsins sem kom frá Samaríu.
19 Jósía lét einnig fjarlægja öll hús á fórnarhæðunum sem Ísraelskonungar höfðu látið reisa í borgum Samaríu og með því vakið reiði Drottins. Hann fór með þau eins og altarið í Betel. 20 Hann slátraði öllum prestum fórnarhæðanna á ölturunum og brenndi síðan mannabein á þeim. Síðan sneri hann heim til Jerúsalem.
21 Nú skipaði konungurinn öllu fólkinu og sagði: „Haldið Drottni, Guði ykkar, páska eins og skráð er í þessari sáttmálsbók.“ 22 Slík páskahátíð hafði ekki verið haldin síðan dómarar stjórnuðu Ísrael og aldrei á dögum Ísraelskonunga eða Júdakonunga. 23 Það var ekki fyrr en á átjánda stjórnarári Jósía konungs að slík páskahátíð var haldin Drottni í Jerúsalem.
24 Jósía lét einnig tortíma öllum miðlum, spásagnamönnum, húsguðum og skurðgoðum og allri þeirri viðurstyggð sem finna mátti í Júda og Jerúsalem. Þannig fullnægði hann kröfum lögmálsins sem skráðar voru í bókinni sem Hilkía yfirprestur fann í musteri Drottins.