Siðbót Jósía

1 Konungur gerði út menn og lét safna til sín öllum öldungum Júda og Jerúsalem. 2 Hann gekk síðan upp til musteris Drottins ásamt öllum íbúum í Júda og Jerúsalem, prestum, spámönnum og öllum almenningi, ungum og gömlum, og las í áheyrn þeirra öll ákvæði sáttmálsbókarinnar sem fundist hafði í musteri Drottins. 3 Konungurinn tók sér stöðu við súluna og gerði sáttmála frammi fyrir Drottni um að fylgja Drottni, hlýða boðum hans, fyrirmælum og lagaákvæðum af öllu hjarta og allri sálu og um að halda ákvæði sáttmálans sem voru skráð í þessa bók. Allt fólkið gekkst undir sáttmálann.
4 Þá skipaði konungurinn Hilkía yfirpresti, prestunum, sem gengu honum næstir að tign, og þeim sem gættu hliðanna að fjarlægja úr musteri Drottins öll þau áhöld sem gerð höfðu verið handa Baal, Aséru og öllum himinsins her og brenna þau utan við Jerúsalem í hlíðum Kedrondals. Öskuna lét hann flytja til Betel.
5 Hann rak prestana sem konungar Júda höfðu ráðið og höfðu brennt reykelsi á fórnarhæðunum í borgum Júda og í grennd við Jerúsalem, fært reykelsisfórnir til Baals, sólarinnar og tunglsins, stjörnumerkjanna og alls himinsins hers.
6 Hann lét flytja Asérustólpann úr musteri Drottins og út fyrir Jerúsalem til Kedrondals. Þar lét hann brenna hann og mylja mélinu smærra og dreifa duftinu á grafir almúgans.
7 Hann lét rífa vistarverur þeirra er helgað höfðu sig saurlifnaði[ í musteri Drottins en þar ófu konur klæði handa Aséru.
8 Jósía lét alla presta koma frá borgum Júda og afhelgaði fórnarhæðirnar þar sem prestarnir höfðu fært reykelsisfórnir allt frá Geba til Beerseba.[ Hann lét rífa niður helgidómana við hliðin sem voru á vinstri hönd þeim sem gengu inn um borgarhlið Jósúa, hershöfðingja borgarinnar. 9 En prestar fórnarhæðanna fengu samt ekki að ganga upp að altari Drottins í Jerúsalem heldur aðeins eta ósýrt brauð með bræðrum sínum. 10 Hann afhelgaði einnig Tófet[ í Hinnomssonardal svo að enginn gæti framar látið son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn fyrir Mólok.
11 Hann lét fjarlægja hestana, sem konungar Júda höfðu fengið sólguðinum og voru við innganginn að musteri Drottins, við vistarveru Netans Meleks, hirðmanns í Parvarím, og lét brenna sólvagnana í eldi. 12 Konungurinn lét brjóta niður ölturun, sem konungar Júda höfðu látið gera á þaki loftstofu Akasar, og ölturun sem Manasse hafði látið gera í báðum forgörðum musteris Drottins. Þar lét hann mylja þau og fleygja duftinu í Kedrondalinn.
13 Konungurinn afhelgaði fórnarhæðirnar austan við Jerúsalem, sunnan við fjall eyðingarinnar,[ en þær hafði Salómon konungur látið reisa handa Astarte, hinni andstyggilegu gyðju Sídoninga, og Kamos, hinum viðurstyggilega guði Móabíta, og Milkóm, hinum svívirðilega guði Ammóníta. 14 Hann lét brjóta merkisteinana og höggva niður stólpa Aséru og þakti staðinn, þar sem þeir höfðu verið, með mannabeinum.