21. Kafli

Amón Júdakonungur

19 Amón var tuttugu og tveggja ára þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem tvö ár. Móðir hans hét Masullemet Harúsdóttir og var frá Jotba.
20 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og Manasse, faðir hans, hafði gert. 21 Hann fylgdi í öllu lifnaðarháttum föður síns, þjónaði sömu hjáguðum og faðir hans hafði þjónað og dýrkaði þá.
22 Hann sneri baki við Drottni, Guði forfeðra sinna, og gekk ekki á vegum hans.
23 Þá gerðu hirðmenn Amóns samsæri gegn honum og drápu hann í höll sinni 24 en fólkið drap alla þá sem gert höfðu samsæri gegn Amón konungi og gerði Jósía, son hans, að konungi eftir hann.
25 Það sem ósagt er af sögu Amóns og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga.
26 Hann var lagður í gröf sína í garði Ússa. Jósía, sonur hans, varð konungur eftir hann.

22. Kafli

Jósía Júdakonungur

1 Jósía var átta ára þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem þrjátíu og eitt ár. Móðir hans hét Jedída Adajadóttir frá Boskat. 2 Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins. Hann fetaði í fótspor Davíðs, forföður síns, og vék hvorki til hægri né vinstri frá þeim.

Lögbókin fundin

3 Nú bar svo við á átjánda stjórnarári Jósía konungs að hann sendi ríkisritarann Safan Asaljason Mesúllamssonar til musteris Drottins og sagði: 4 „Farðu til Hilkía yfirprests. Hann á að reiða fram það fé sem borið hefur verið í musteri Drottins og þeir sem gæta hliðanna[ hafa safnað saman hjá fólkinu. 5 Síðan skal það fengið verkstjórunum í musteri Drottins og skulu þeir greiða það verkamönnunum sem vinna við að lagfæra skemmdir á því, 6 trésmiðum, byggingarverkamönnum og steinsmiðum. Enn fremur skal kaupa fyrir það timbur og höggna steina sem þarf til þess að gera við húsið. 7 Ekki skal krefja þá reikningsskila sem trúað er fyrir fénu því að þeir bera sjálfir ábyrgð á verki sínu.“