Jesaja læknar Hiskía

1 Um þessar mundir veiktist Hiskía og var að dauða kominn. Spámaðurinn Jesaja Amotsson kom þá til hans og sagði: „Svo segir Drottinn: Ráðstafaðu eigum þínum því að þú munt deyja, þú munt ekki halda lífi.“ 2 Hiskía sneri sér þá til veggjar, bað til Drottins og sagði: 3 „Minnstu þess nú, Drottinn, að ég hef breytt í trúfesti og af einlægni fyrir augliti þínu og gert það sem gott er í augum þínum.“ Og Hiskía grét ákaflega.
4 En áður en Jesaja var kominn út úr miðforgarði hallarinnar kom orð Drottins til hans svohljóðandi: 5 „Snúðu aftur og segðu við Hiskía, leiðtoga þjóðar minnar: Svo segir Drottinn, Guð Davíðs, forföður þíns: Ég hef heyrt bæn þína og ég hef séð tár þín. Ég mun lækna þig. Á þriðja degi skaltu ganga í musteri Drottins. 6 Ég mun lengja ævi þína um fimmtán ár. Ég mun bjarga þér og þessari borg úr höndum Assýríukonungs og ég mun vernda þessa borg vegna sjálfs mín og vegna Davíðs, þjóns míns.“ 7 Því næst sagði Jesaja: „Komið með fíkjudeig.“ Var það sótt og lagt við kýli konungs svo að hann læknaðist.
8 Þá spurði Hiskía Jesaja: „Hvað er til marks um að Drottinn muni lækna mig svo að ég geti gengið í musteri Drottins á þriðja degi?“ 9 Jesaja svaraði: „Þetta skaltu hafa til marks um að Drottinn muni gera það sem hann hefur heitið: Á skugginn að færast fram eða aftur um tíu stig?“ 10 Hiskía svaraði: „Það er auðvelt fyrir skuggann að færa sig fram um tíu stig. Nei, hann á að færast aftur um tíu stig.“ 11 Jesaja spámaður hrópaði þá til Drottins sem lét skuggann færast aftur um þau tíu stig sem hann hafði farið niður eftir þrepum Akasar.