Fyrirheit um björgun Jerúsalem

29 Þetta skal vera þér [ tákn:
Á þessu ári skuluð þér
nærast á sjálfsánu korni,
næsta ár á villtu korni
en þriðja árið skuluð þér sá og uppskera,
planta víngarða
og neyta ávaxta þeirra.
30 Þeir sem skildir verða eftir af Júdaættkvísl
og komast af
munu aftur skjóta rótum í jörðu
og bera ávöxt hið efra.
31 Frá Jerúsalem koma þeir sem eftir verða
og frá Síonarfjalli þeir sem frelsast.
Brennandi ákafi Drottins mun koma þessu til leiðar.
32 Þess vegna segir Drottinn um Assýríukonung:
Hann kemur ekki inn í þessa borg,
skýtur ekki einni ör þangað.
Hann ber hvorki skjöld gegn henni
né hleður að henni virkisvegg.
33 Hann mun snúa aftur sama veg og hann kom,
inn í þessa borg kemur hann ekki, segir Drottinn.
34 Ég vil vernda þessa borg og frelsa hana,
vegna sjálfs mín og vegna Davíðs, þjóns míns.

Jerúsalem bjargað

35 Þessa sömu nótt fór engill Drottins út og deyddi hundrað áttatíu og fimm þúsund menn í herbúðum Assýringa. Um fótaferð morguninn eftir voru þeir allir liðin lík. 36 Sanheríb Assýríukonungur lagði þá af stað, sneri aftur til Níníve og hélt þar kyrru fyrir. 37 En svo bar við einhverju sinni þegar hann baðst fyrir í húsi Nísroks, guðs síns, að Adrammelek og Sareser, synir hans, hjuggu hann til bana með sverði. Þeir komust undan á flótta til Araratlands. Asarhaddon, sonur Sanheríbs, varð konungur eftir hann.