Háðkvæði um Assýríukonung

20 Jesaja Amotsson sendi þessi boð til Hiskía: „Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Þú hefur beðið til mín um hjálp gegn Sanheríb Assýríukonungi og ég hef bænheyrt þig. 21 Þetta er orðið sem Drottinn hefur talað gegn honum:
Hún fyrirlítur þig, hún hæðist að þér,
mærin, dóttirin Síon.
Hún hristir höfuðið yfir þér,
dóttirin Jerúsalem.
22 Hvern hefur þú smánað og hvern spottað?
Gegn hverjum hefur þú brýnt raustina,
gegn hverjum hvesst augun?
Gegn Hinum heilaga í Ísrael!
23 Þú hæddir Drottin af munni sendiboða þinna
og sagðir: „Ég hef farið upp á hæstu fjöllin,
á efsta tind Líbanons
með fjölmarga stríðsvagna.
Ég hef höggvið hæstu sedrustrén
og voldugustu kýprustrén.
Ég hef komið inn í innstu fylgsnin
í þéttasta þykkninu.
24 Ég hef grafið brunna
og drukkið útlent vatn.
Ég hef þurrkað upp allar ár Egyptalands
undir iljum fóta minna.“
25 Hefur þú ekki heyrt?
Fyrir löngu kom ég þessu til leiðar,
frá öndverðu ráðgerði ég þetta.
Nú hef ég látið það verða:
Þú gerðir víggirtar borgir
að rústum og grjóthrúgum
26 svo að íbúum þeirra féllust hendur
og þeir voru niðurlægðir og auðmýktir.
Þeir voru eins og reyr á engi,
eins og nýsprottið grængresið.
Þeir voru líkir grasi á þaki
sem sviðnaði í glóðheitum austanvindinum.
27 Hvort sem þú situr kyrr,
gengur út eða inn,
þá veit ég það.
28 Þar sem þú hefur hamast gegn mér
og öskur þitt hefur borist mér til eyrna
set ég hring í nasir þér og beisli í munn þér:
Ég mun teyma þig aftur
sama veg og þú komst.