Hiskía leitar til Jesaja spámanns

1 Þegar Hiskía konungur heyrði þetta reif hann klæði sín, klæddist hærusekk og gekk í musteri Drottins. 2 Síðan sendi hann Eljakím hirðstjóra, Sebna ríkisritara og öldunga prestanna klædda hærusekkjum til Jesaja Amotssonar spámanns 3 og skyldu þeir segja við hann: „Svo segir Hiskía: Í dag er dagur neyðar, hirtingar og háðungar. Barnið er komið í burðarliðinn en krafturinn enginn til að fæða. 4 Ef til vill hefur Drottinn, Guð þinn, heyrt öll orð konungsfulltrúans sem Assýríukonungur, húsbóndi hans, lét hann segja til að smána hinn lifandi Guð. Ef til vill mun Drottinn, Guð þinn, senda refsingu fyrir það sem hann heyrði. En bið þú fyrir þeim sem af komast.“
5 Þjónar Hiskía konungs komu nú til Jesaja 6 og hann sagði við þá: „Segið húsbónda ykkar: Svo segir Drottinn: Þú skalt ekki óttast smánaryrðin sem þjónar Assýríukonungs svívirtu mig með. 7 Ég mun senda í hann anda og hann mun heyra orðróm nokkurn og snúa aftur til lands síns. Síðan læt ég hann falla fyrir sverði í sínu eigin landi.“
8 Marskálkurinn sneri aftur er hann frétti að Assýríukonungur væri farinn frá Lakís og fann hann þar sem hann herjaði á Líbna. 9 Er Assýríukonungur frétti að Tírhaka, konungur Kúss, væri lagður af stað í hernað gegn honum gerði hann menn á fund Hiskía með þessi boð: 10 „Svo skuluð þið segja við Hiskía Júdakonung: Láttu ekki þennan guð þinn, sem þú treystir á, blekkja þig svo að þú haldir að Jerúsalem verði ekki látin í hendur Assýríukonungi. 11Þú hlýtur að hafa heyrt hvernig Assýríukonungar hafa farið með öll önnur lönd. Þeir hafa gereytt þau. Heldur þú að þú bjargist? 12 Björguðu guðirnir þjóðunum sem forfeður mínir gereyddu? Björguðu þeir Gósan og Haran, Resef og Edensmönnum sem bjuggu í Telassar? 13 Hvar er konungur Hamats, hvar er konungur Arpads eða konungarnir í Laír, Sefarvaím, Hena og Íva?“

Bæn Hiskía

14 Hiskía tók við bréfinu af sendiboðunum, las það, gekk í musteri Drottins og breiddi úr því frammi fyrir augliti Drottins. 15 Síðan flutti Hiskía bæn fyrir augliti Drottins og sagði:
„Drottinn, Guð Ísraels, þú sem situr í hásæti yfir kerúbunum, þú einn ert Guð allra konungsríkja veraldar. Það ert þú sem hefur gert himin og jörð. 16 Leggðu við eyru og heyr. Ljúktu upp augum, Drottinn, og líttu á. Hlýddu á skilaboð Sanheríbs sem hann sendi til þess að smána hinn lifandi Guð. 17 Satt er það, Drottinn, að konungar Assýríu hafa eytt þjóðum og löndum þeirra 18 og varpað guðum þeirra á eld. En þeir voru engir guðir heldur verk manna úr tré og steini. Þess vegna gátu þeir eytt þeim. 19 Drottinn, Guð okkar, bjargaðu okkur nú úr greipum hans svo að öll konungsríki veraldar komist að raun um að þú, Drottinn, þú einn ert Guð.“