26 Þá svöruðu Eljakím Hilkíason, Sebna og Jóak marskálkinum og sögðu: „Talaðu arameísku við þjóna þína. Við skiljum hana.[ En þú skalt ekki tala hebresku við okkur í áheyrn fólksins sem stendur á borgarmúrnum.“ 27 Þá sagði marskálkurinn: „Heldur þú að húsbóndi minn hafi aðeins sent mig til húsbónda þíns og til þín með þessi skilaboð? Eru þau ekki einmitt til fólksins sem situr þarna á borgarmúrnum og mun ásamt ykkur neyðast til að leggja sér sinn eigin saur til munns og drekka sitt eigið þvag?“ 28 Því næst gekk marskálkurinn fram og hrópaði hátt og snjallt á hebresku: „Heyrið orð stórkonungsins, konungs Assýríu: 29 Svo segir konungurinn: Látið Hiskía ekki blekkja ykkur því að hann er ekki fær um að bjarga ykkur úr hendi minni.[ 30 Og látið Hiskía ekki koma ykkur til að treysta Drottni með því að segja: Drottinn mun áreiðanlega bjarga okkur. Þessi borg skal ekki afhent Assýríukonungi. 31 Hlustið ekki á Hiskía því að konungur Assýríu segir: Semjið frið við mig og gangið mér á hönd. Þá mun sérhver ykkar geta neytt af eigin vínviði og eigin fíkjutré og drukkið vatn úr eigin brunni 32 uns ég kem og flyt ykkur til lands sem líkist ykkar eigin landi. Það er land sem er auðugt að korni og vínberjasafa, brauði og víngörðum, olíuviði og hunangi. Þá munuð þið lifa en ekki deyja. Hlustið ekki á Hiskía þegar hann segir: Drottinn mun bjarga okkur. 33 Hefur nokkur guð annarra þjóða bjargað landi sínu úr greipum Assýríukonungs? 34 Hvar eru guðir borganna Hamat og Arpad? Hvar eru guðir Sefarvaíms, Hena og Íva? Björguðu þeir Samaríu frá mér? 35Hverjir af guðum annarra landa hafa bjargað löndum sínum úr greipum mínum? Hvernig ætti Drottinn þá að geta bjargað Jerúsalem frá mér?“
36 En fólkið þagði og svaraði honum ekki einu orði því að konungurinn hafði sagt: „Svarið honum ekki.“ 37 Eljakím Hilkíason hirðstjóri gekk þá ásamt Sebna ríkisritara og Jóak Asafssyni, kallara konungs, í sundurrifnum[ klæðum til Hiskía og þeir sögðu honum hvað marskálkurinn hafði sagt.