Sanheríb ógnar Júda

13 Á fjórtánda stjórnarári Hiskía konungs réðst Sanheríb Assýríukonungur gegn öllum víggirtum borgum í Júda og tók þær. 14 En Hiskía Júdakonungur sendi þessi boð til Assýríukonungs í Lakís: „Ég hef brotið af mér. Far aftur burt frá mér og ég skal bera það sem þú leggur á mig.“ Assýríukonungur heimtaði þá þrjú hundruð talentur silfurs og þrjátíu talentur gulls af Hiskía Júdakonungi. 15 Hiskía lét síðan af hendi allt það silfur sem fannst í musteri Drottins og fjárhirslum konungshallarinnar. 16 Lét þá Hiskía Júdakonungur höggva gullið af hurðunum á musterissal Drottins og súlunum, sem hann hafði sjálfur látið leggja gulli, og afhenti það Assýríukonungi.
17 Assýríukonungur sendi því næst yfirhershöfðingja sinn, höfuðsmann og marskálk[ með mikið herlið frá Lakís til Jerúsalem á fund Hiskía konungs. Þeir héldu af stað, komu til borgarinnar og tóku sér stöðu við vatnsleiðsluna úr efri tjörninni við veginn til þvottavallarins. 18 Þeir létu kalla á konunginn en Eljakím Hilkíason hirðstjóri kom út til þeirra ásamt Sebna ríkisritara og Jóak Asafssyni konungsfulltrúa.
19 Marskálkurinn sagði við þá: „Skilið þessu til Hiskía: Svo segir stórkonungurinn, konungur Assýríu: Á hverju hefur þú traust? 20 Heldurðu að orðin ein dugi sem ráð og styrkur í hernaði? Á hvern treystirðu úr því að þú hefur gert uppreisn gegn mér? 21 Þú treystir sjálfsagt á þennan brotna reyrstaf, Egyptaland, sem stingst inn í hönd þess sem styður sig við hann og fer gegnum hana. Þannig reynist faraó, konungur Egyptalands, hverjum þeim sem treystir á hann. 22 En ef þið segið við mig: Við treystum Drottni, Guði okkar, þá spyr ég: Voru það ekki fórnarhæðir hans og ölturu sem Hiskía lagði af er hann sagði við íbúa Júda og Jerúsalem: Þið skuluð aðeins falla fram fyrir altarinu í Jerúsalem? 23 Nú skaltu veðja við húsbónda minn, Assýríukonung: Ég skal gefa þér tvö þúsund hesta ef þú getur sett á þá riddara. 24 Hvernig mun þér takast að reka nokkurn landstjóra húsbónda míns á flótta, jafnvel þann aumasta þeirra, úr því að þú treystir á Egyptaland um stríðsvagna og vagnstjóra? 25 Heldur þú að ég hafi farið til þessa staðar gegn vilja Drottins? Nei, það var Drottinn sjálfur sem sagði við mig: Farðu gegn þessu landi og leggðu það í eyði.“