52 Því næst hélt hann af stað með þjóð sína eins og fjársafn,
leiddi hana eins og hjörð um eyðimörkina.
53 Hann leiddi þá óhulta og óttalausa
en óvini þeirra huldi hafið.
54 Síðan fór hann með þá til síns heilaga lands,
til fjalllendisins sem hægri hönd hans hafði unnið,
55 stökkti þjóðum undan þeim,
skipti landi þeirra í erfðalönd með hlutkesti,
lét ættbálka Ísraels setjast að í tjöldum þeirra.
56 En þeir freistuðu Hins hæsta Guðs, risu gegn honum
og héldu ekki lög hans,
57 sviku hann í tryggðum eins og feður þeirra,
brugðust eins og svikull bogi.
58 Þeir reittu hann til reiði með fórnarhæðum sínum,
vöktu afbrýði hans með skurðgoðum sínum.
59 Guð heyrði það og reiddist
og hafnaði Ísrael að fullu.
60 Hann yfirgaf bústaðinn í Síló,
tjaldið sem hann bjó í meðal manna.
61 Hann lét herleiða mátt sinn,
seldi dýrð sína í hendur fjandmanna.
62 Hann ofurseldi lýð sinn sverðseggjum,
reiddist arfleifð sinni.
63 Æskumenn hans gleypti eldurinn,
meyjar hans urðu af brúðkaupssöngvum,
64 prestar hans féllu fyrir sverði
og ekkjur hans fengu ekki harmljóð flutt.