Saga Júdaríkisins

Hiskía Júdakonungur

1 Á þriðja stjórnarári Hósea Elasonar Ísraelskonungs varð Hiskía Akasson Júdakonungur. 2 Hann var tuttugu og fimm ára þegar hann varð konungur og ríkti tuttugu og níu ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Abí og var Sakaríadóttir. 3 Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins, alveg eins og Davíð, forfaðir hans. 4 Það var hann sem afnam fórnarhæðirnar, braut merkisteinana og hjó niður Asérustólpana. Hann braut einnig eirorminn, sem Móse hafði gert, en allt til þess tíma höfðu Ísraelsmenn fært honum reykelsisfórnir og var hann nefndur Nehústan.[ 5 Hiskía treysti Drottni, Guði Ísraels. Enginn var honum líkur meðal konunga Júda, hvorki fyrr né síðar. 6 Hann var Drottni handgenginn og vék ekki frá honum. Hann hlýddi boðum þeim sem Drottinn hafði lagt fyrir Móse. 7 Þess vegna var Drottinn með honum svo að honum lánaðist allt sem hann tók sér fyrir hendur.
Hann gerði uppreisn gegn Assýríukonungi og var honum ekki lengur undirgefinn. 8 Hann vann land Filistea allt til Gasa og landsvæðið umhverfis hana, jafnt varðturna sem víggirtar borgir.
9 Á fjórða stjórnarári Hiskía, sem var sjöunda stjórnarár Hósea Elasonar Ísraelskonungs, hélt Salmaneser Assýríukonungur gegn Samaríu, settist um hana 10 og tók borgina eftir þrjú ár. Á sjötta stjórnarári Hiskía, sem var níunda stjórnarár Hósea Ísraelskonungs, var Samaría unnin. 11 Assýríukonungur flutti Ísraelsmenn í útlegð til Assýríu og kom þeim fyrir í Hala og við Habor, sem er fljót í Gósan, og í borgum Meda. 12 Þetta gerðist af því að þeir höfðu ekki hlustað á rödd Drottins, Guðs síns, heldur rofið sáttmála hans, allt það sem Móse, þjónn Drottins, hafði boðið þeim. Þeir hlustuðu hvorki á það né breyttu eftir því.