19 Júdamenn hlýddu þó ekki boðum Drottins, Guðs síns, heldur fóru að þeim siðum sem Ísraelsmenn höfðu tamið sér. 20 Þess vegna hafnaði Drottinn allri þjóð Ísraels. Hann auðmýkti hana, framseldi í hendur ræningjum og rak hana loks frá augliti sínu.
21 Þegar hann hafði rifið Ísrael frá ætt Davíðs og þeir höfðu gert Jeróbóam Nebatsson að konungi, þá leiddi Jeróbóam Ísraelsmenn burt frá Drottni og kom þeim til að drýgja mikla synd. 22 Ísraelsmenn drýgðu allar sömu syndirnar og Jeróbóam og sneru ekki baki við þeim 23 fyrr en Drottinn vék Ísrael frá augliti sínu eins og hann hafði boðað fyrir munn þjóna sinna, spámannanna. Ísrael var því fluttur úr landi sínu í útlegð til Assýríu og er þar enn.
Ísraelsmenn herleiddir
24 Assýríukonungur flutti fólk frá Babýlon, Kúta, Ava, Hamat og Sefarvaím til landsins[ og lét það setjast að í borgum Samaríu í stað Ísraelsmanna. Þessar þjóðir tóku Samaríuhérað[ og settust að í borgum þess.
25 Fyrst eftir að þjóðir þessar voru sestar þar að dýrkuðu þær ekki Drottin. Drottinn sendi því ljón til þeirra og drápu þau nokkra menn. 26 Menn sneru sér því til Assýríukonungs og sögðu: „Þjóðirnar, sem þú fluttir í útlegð og lést setjast að í borgum Samaríu, þekkja ekki helgisiði landsguðsins. Nú hefur hann sent til þeirra ljón sem drepa þær af því að þær þekkja ekki helgisiði landsguðsins.“
27 Þá skipaði Assýríukonungur svo fyrir: „Látið einn prestanna, sem þið fluttuð í útlegð, fara þangað aftur. Hann skal setjast þar að og kenna þeim helgisiði landsguðsins.“ 28 Þá kom einn prestanna, sem fluttir höfðu verið frá Samaríu, aftur, settist að í Betel og kenndi þeim hvernig þeir áttu að dýrka Drottin.
Átrúnaður nýrra íbúa í Ísrael
29 Hver þjóð gerði sína eigin guði og kom þeim fyrir í húsum sem Samverjar höfðu reist á fórnarhæðunum. Þetta gerðu þær allar í borgunum þar sem þær bjuggu. 30 Babýloníumenn gerðu sér guðinn Súkkót-Benót, Kútamenn gerðu Nergal, Hamatmenn Asíma 31 og Avítar Nikkas og Tartak. Þeir sem komu frá Sefarvaím brenndu börn sín í eldi handa Adrammelek og Anammelek, guðunum frá Sefarvaím. 32 En þeir dýrkuðu einnig Drottin og gerðu nokkra menn úr sínum hópi að prestum sem áttu að þjóna fyrir þá í húsunum á fórnarhæðunum. 33 Þeir dýrkuðu Drottin en þjónuðu einnig sínum eigin guðum að siðum þjóðanna sem þeir höfðu verið fluttir í útlegð frá.
34 Allt til þessa dags hafa þeir fylgt sínum fyrri siðum. Hvorki dýrka þeir Drottin né fara eftir þeim ákvæðum og reglum, lögum og boðum sem Drottinn lagði fyrir niðja Jakobs sem hann gaf nafnið Ísrael. 35 En Drottinn hafði gert við þá sáttmála og boðið þeim á þessa leið: „Þið skuluð ekki dýrka aðra guði, ekki tilbiðja þá, ekki þjóna þeim og ekki færa þeim fórnir. 36 Drottin, sem leiddi ykkur frá Egyptalandi með miklum mætti og útréttum armi, skuluð þið einan dýrka og tilbiðja og færa honum fórnir. 37 Þeim ákvæðum og reglum, lögum og boðum, sem hann hefur ritað handa ykkur, skuluð þið hlýða með því að halda þau ævinlega. Aðra guði skuluð þið ekki dýrka. 38 Sáttmálanum, sem ég hef gert við ykkur, skuluð þið ekki gleyma. Þið skuluð ekki dýrka aðra guði. 39 Drottin einan, Guð ykkar, skuluð þið dýrka og hann mun frelsa ykkur úr höndum allra óvina ykkar.“
40 Þeir vildu ekki hlýða en héldu fyrri siðum. 41 Þessar þjóðir dýrkuðu Drottin en þjónuðu einnig guðamyndum sínum og börn þeirra og barnabörn gera enn í dag eins og feður þeirra.