Hósea Ísraelskonungur og fall Samaríu

1 Á tólfta stjórnarári Akasar, konungs í Júda, varð Hósea Elason konungur yfir Ísrael og ríkti níu ár í Samaríu. 2Hann gerði það sem illt var í augum Drottins, samt ekki eins og þeir konungar Ísraels sem voru fyrirrennarar hans.
3 Gegn honum réðst nú Salmaneser Assýríukonungur og varð Hósea honum lýðskyldur og greiddi honum skatt. 4Síðan komst Assýríukonungur að því að Hósea tók þátt í samsæri gegn honum og að hann hafði sent mann til Só Egyptalandskonungs en ekki skilað árlegum skatti til Assýríukonungs sem lét því grípa hann og varpa honum í fangelsi.
5 Assýríukonungur herjaði á allt landið, fór til Samaríu og sat um hana í þrjú ár. 6 Á níunda stjórnarári Hósea vann Assýríukonungur Samaríu, flutti Ísraelsmenn í útlegð til Assýríu og setti þá niður í Hala og við Haborfljót í Gósan og í borgum Meda.

Endalok Norðurríkisins, Ísraels

7 Þannig fór af því að Ísraelsmenn syndguðu gegn Drottni, Guði sínum, sem hafði leitt þá upp frá Egyptalandi undan valdi faraós, konungs Egyptalands. Þeir dýrkuðu aðra guði 8 og lifðu samkvæmt siðum þjóðanna, sem Drottinn hafði hrakið undan Ísraelsmönnum, og fylgdu fordæmi Ísraelskonunga. 9 Ísraelsmenn gerðu ýmislegt á laun sem ekki var í samræmi við vilja Drottins, Guðs þeirra. Þeir reistu sér fórnarhæðir í öllum borgum sínum, bæði hjá varðturnum og víggirtum borgum. 10 Þeir reistu merkisteina og Asérustólpa á hverjum háum hól og undir hverju grænu tré 11 og færðu reykelsisfórnir á öllum þessum hæðum eins og þjóðirnar sem Drottinn hafði rekið í útlegð á undan þeim. Þeir unnu ill verk og vöktu með því reiði Drottins. 12 Þeir dýrkuðu hjáguði þó að Drottinn hefði sagt við þá: „Svo skuluð þið ekki gera.“
13 Drottinn hafði varað Ísrael og Júda við fyrir munn allra spámanna sinna og sjáenda: „Snúið frá illri breytni ykkar og haldið boð mín og ákvæði samkvæmt lögmáli mínu sem ég lagði fyrir forfeður ykkar og flutti ykkur af munni spámanna minna.“
14 En þeir vildu ekki hlusta heldur voru harðsvíraðir eins og forfeður þeirra sem treystu ekki Drottni, Guði sínum. 15 Þeir höfnuðu ákvæðum hans og þeim sáttmála, sem hann hafði gert við forfeður þeirra, og skeyttu engu þeim viðvörunum sem hann sendi þeim. Þeir eltust við fánýti og urðu sjálfir fánýtir. Þeir líktu eftir nágrannaþjóðunum þótt Drottinn hefði bannað þeim að líkja eftir þeim. 16 Þeir brutu öll boð Drottins, Guðs síns, steyptu sér tvö kálfslíkneski, gerðu Asérustólpa, dýrkuðu allan himinsins her og þjónuðu Baal. 17 Þeir létu syni sína og dætur ganga gegnum eldinn, stunduðu galdra og særingar, ofurseldu sig því sem illt var í augum Drottins og vöktu þannig reiði hans. 18 Af þessum sökum reiddist Drottinn Ísraelsmönnum ákaflega og vék þeim burt frá augliti sínu. Ættbálkur Júda var einn eftir.