15. Kafli

Jótam Júdakonungur

32 Á öðru stjórnarári Peka Remaljasonar varð Jótam Ússíason Júdakonungur. 33 Hann var tuttugu og fimm ára þegar hann varð konungur og ríkti sextán ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa og var Sadóksdóttir. 34 Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins, alveg eins og Ússía, faðir hans. 35 Fórnarhæðirnar voru þó ekki aflagðar og fólkið hélt áfram að færa sláturfórnir og reykelsisfórnir á hæðunum. Það var Jótam sem lét reisa efra hliðið í musteri Drottins. 36 Það sem ósagt er af sögu Jótams og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga. 37 Um þetta leyti tók Drottinn að láta Resín, konung Arams, og Peka Remaljason ráðast á Júda.
38 Jótam var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn hjá þeim í borg Davíðs, forföður síns. Akas, sonur hans, varð konungur eftir hann.

16. Kafli

Akas Júdakonungur

1 Á sautjánda stjórnarári Peka Remaljasonar tók Akas, sonur Jótams Júdakonungs, við völdum. 2 Akas var tuttugu ára þegar hann varð konungur og hann ríkti sextán ár í Jerúsalem.
Ólíkt Davíð, forföður sínum, gerði hann ekki það sem rétt var í augum Drottins, Guðs hans. 3 Hann breytti eins og konungar Ísraels og lét jafnvel son sinn ganga gegnum eld að hinum svívirðilega hætti þeirra þjóða sem Drottinn hafði hrakið brott undan Ísraelsmönnum. 4 Hann færði sláturfórnir og reykelsisfórnir á fórnarhæðum og hólum og undir hverju grænu tré.
5 Á þeim tíma héldu þeir Resín, konungur Arams, og Peka Remaljason, konungur Ísraels, upp til Jerúsalem til að herja á hana. Þeir umkringdu Akas en komu honum ekki til að berjast. 6 Um þetta leyti lagði Resín Aramskonungur Elat aftur undir Aram og rak Júdamenn frá Elat. Komu Edómítar þá til Elat, settust þar að og búa þar enn í dag.