Tveir synir

28 Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. 29 Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. 30 Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. 31 Hvor þeirra gerði vilja föðurins?“
Þeir svara: „Sá fyrri.“
Þá mælti Jesús: „Sannlega segi ég ykkur: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki. 32 Því að Jóhannes kom til ykkar og vísaði ykkur á réttan veg og þið trúðuð honum ekki en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þið en tókuð samt ekki sinnaskiptum og trúðuð honum.“