38 En hann er miskunnsamur, fyrirgefur misgjörðir
og eyðir þeim ekki.
Oft stillir hann reiði sína,
heldur aftur af bræði sinni.
39 Hann minntist þess að þeir voru hold,
andgustur sem líður burt og snýr ekki aftur.
40 Hve oft risu þeir ekki gegn honum í auðninni,
styggðu hann í eyðimörkinni.
41 Þeir reyndu Guð hvað eftir annað
og vanvirtu Hinn heilaga í Ísrael.
42 Þeir minntust ekki handar hans,
dagsins sem hann frelsaði þá frá óvininum,
43 þegar hann gerði tákn sín í Egyptalandi
og undur sín á Sóanvöllum.
44 Hann breytti fljótum þeirra í blóð
og þeir gátu ekki drukkið vatn úr lækjum sínum.
45 Hann sendi flugur gegn þeim sem átu þá
og froska sem eyddu þeim.
46 Hann gaf átvargi afurðir þeirra
og engisprettum uppskeru þeirra.
47 Hann eyddi vínvið þeirra með hagli
og mórberjatré þeirra með frosti.
48 Hann ofurseldi fé þeirra drepsótt
og hjarðir þeirra sjúkdómum.
49 Hann sendi logandi heift sína gegn þeim,
harm, bræði og nauðir,
sveitir illra sendiboða.
50 Hann gaf reiðinni lausan taum,
þyrmdi ekki lífi þeirra
heldur ofurseldi þá drepsótt.
51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi,
frumgróða karlmennskunnar í tjöldum Kams.