Biblíulestur 25. október – Lúk 24.36-53

2019-06-13T00:38:49+00:00Föstudagur 25. október 2019|

Friður sé með yður

36 Nú voru þau að tala um þetta og þá stendur hann sjálfur meðal þeirra og segir við þau: „Friður sé með yður!“[
37 En þau skelfdust og urðu hrædd og hugðust sjá anda. 38 Hann sagði við þau: „Hví eruð þið óttaslegin og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta ykkar? 39 Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þið sjáið að ég hef.“
40 Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og fætur.[ 41 Enn gátu þau ekki trúað fyrir fögnuði og undrun. Þá sagði hann við þau: „Hafið þið hér nokkuð til matar?“ 42 Þau fengu honum stykki af steiktum fiski 43og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim.
44 Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“
45 Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar. 46 Og hann sagði við þau: „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi 47 og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. 48 Þið eruð vottar þessa. 49 Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“

Með miklum fögnuði

50 Síðan fór hann með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. 51 En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins.[ 52 En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. 53 Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.

Title

Fara efst