8 En Heródes varð næsta glaður er hann sá Jesú því hann hafði lengi langað að sjá hann þar eð hann hafði heyrt frá honum sagt. Vænti hann nú að sjá hann gera eitthvert tákn. 9 Hann spurði Jesú á marga vegu en hann svaraði honum engu. 10 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir stóðu þar og ásökuðu hann harðlega. 11 En Heródes óvirti hann og spottaði ásamt hermönnum sínum, lagði yfir hann skínandi klæði og sendi hann aftur til Pílatusar. 12 Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir en áður var fjandskapur með þeim.

Dæmdur til dauða

13 Pílatus kallaði nú saman æðstu prestana, höfðingjana og fólkið 14 og mælti: „Þið hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í ykkar viðurvist en enga þá sök fundið hjá honum er þið ákærið hann um. 15 Ekki heldur Heródes því hann sendi hann aftur til okkar. Ljóst er að hann hefur ekkert það drýgt er dauða sé vert. 16 Ætla ég því að hirta hann og láta lausan.“ [ 17 En skylt var honum að gefa þeim lausan einn bandingja á hverri hátíð.][
18 En þeir æptu allir: „Burt með hann, gefðu okkur Barabbas lausan!“ 19 En honum hafði verið varpað í fangelsi fyrir upphlaup nokkurt sem varð í borginni og manndráp.
20 Pílatus talaði enn til þeirra og vildi láta Jesú lausan. 21 En þeir æptu á móti: „Krossfestu, krossfestu hann!“
22 Í þriðja sinn sagði Pílatus við þá: „Hvað illt hefur þá þessi maður gert? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan.“
23 En þeir sóttu á með ópi miklu og heimtuðu að hann yrði krossfestur. Og þeir höfðu sitt fram.
24 Þá ákvað Pílatus að kröfu þeirra skyldi fullnægt. 25 Hann gaf lausan þann er þeir báðu um og varpað hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og manndráp en framseldi þeim Jesú að þeir færu með hann sem þeir vildu.