Eins er þér vant

17 Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
18 Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. 19 Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
20 Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
21 Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ 22 En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
23 Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
24 Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. 25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
26 En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
27 Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“