21Drottinn heyrði þetta og reiddist,
eldur blossaði upp gegn Jakobi
og reiði brann gegn Ísrael
22 því að þeir trúðu ekki Guði
eða treystu hjálp hans.
23 Þá bauð hann skýjunum í hæðum
og opnaði dyr himins,
24 lét manna rigna yfir þá til matar
og gaf þeim himnakorn,
25 englabrauð fengu menn að eta,
hann sendi þeim fæðu og þeir urðu mettir.
26 Hann lét austanvindinn blása af himnum
og knúði sunnanvindinn með mætti sínum.
27 Hann lét kjöti rigna yfir þá sem dufti
og mergð fugla eins og sandi á sjávarströnd.
28 Hann lét þá falla niður í búðir sínar
umhverfis bústað sinn.
29 Þeir átu og urðu vel saddir,
hann sendi þeim það sem þeir girntust.
30 Áður en græðgin hvarf þeim,
meðan maturinn var enn í munni þeirra,
31 reis heift Guðs gegn þeim
og hann deyddi valdamenn þeirra,
felldi æskumenn Ísraels.
32 Þrátt fyrir allt þetta héldu þeir áfram að syndga gegn honum
og trúðu ekki á máttarverk hans.
33 Hann lét því daga þeirra hverfa eins og andgust,
ár þeirra enda í skelfingu.
34 Þegar hann laust þá leituðu þeir hans,
iðruðust og sneru sér til Guðs,
35 minntust þess að Guð var klettur þeirra
og Hinn hæsti Guð frelsari þeirra.
36 Í munni þeirra var hræsni,
með tungu sinni lugu þeir að honum.
37 Hjarta þeirra var ekki stöðugt gagnvart honum
og þeir reyndust ótrúir sáttmála hans.