9Niðjar Efraíms, vopnaðir boga,
flýðu á orrustudeginum.
10Þeir héldu ekki sáttmála Guðs
og vildu ekki fylgja lögum hans,
11gleymdu stórvirkjum Drottins
og máttarverkunum sem hann lét þá sjá.
12Hann drýgði dáðir í augsýn feðra þeirra
í Egyptalandi, á Sóanvöllum.
13Hann klauf hafið og leiddi þá yfir
og lét vatnið standa sem vegg.
14Hann leiddi þá með skýi um daga
og um nætur með lýsandi eldi.
15Hann klauf kletta í auðninni
og gaf þeim gnægð vatns eins og úr frumdjúpinu.
16Hann lét læki spretta úr kletti,
vatnið streyma niður sem fljót.
17Þó héldu þeir áfram að syndga gegn honum,
rísa í eyðimörkinni gegn Hinum hæsta.
18Þeir freistuðu Guðs af ásetningi
með því að heimta mat að vild sinni.
19Þeir mæltu gegn Guði og sögðu:
„Getur Guð búið borð í eyðimörkinni?
20Víst laust hann klett svo að vatn flæddi út
og lækir spruttu fram
en getur hann einnig gefið oss brauð
og séð lýð sínum fyrir kjöti?“