Að stýra tungu sinni

1 Verðið eigi mörg kennarar, bræður mínir og systur.[ Þið vitið að við munum fá þyngri dóm. 2 Öll hrösum við margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum. 3Ef við leggjum hestunum beisli í munn til þess að þeir hlýði okkur, þá getum við stýrt öllum líkama þeirra. 4 Sjáið einnig skipin, svo stór sem þau eru og rekin af hörðum vindum. Þeim verður stýrt með mjög litlu stýri, hvert sem stýrimaðurinn vill. 5 Þannig er einnig tungan lítill limur en lætur mikið yfir sér.
Sjáið hversu lítill neisti getur kveikt í miklum skógi. 6 Tungan er líka eldur. Tungan er ranglætisheimur meðal lima okkar. Hún flekkar allan manninn og kveikir í allri tilveru hans en er sjálf tendruð af helvíti. 7 Allar tegundir dýra og fugla, skriðkvikindi og sjávardýr má temja og hafa mennirnir tamið 8 en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er full af banvænu eitri. 9 Með henni vegsömum við Drottin okkar og föður og með henni formælum við mönnum sem skapaðir eru í líkingu Guðs. 10 Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir og systur.[ 11 Gefur sama lindin bæði ferskt og beiskt vatn? 12 Mun fíkjutré, bræður mínir og systur,[ geta gefið af sér ólífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn.