1. Kafli

Heyrendur og gerendur

19 Vitið þetta, elskuð systkin.[ Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. 20 Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs. 21 Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði er frelsað getur sálir ykkar.
22 Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið sjálf ykkur. 23 Því að hlýði einhver á orðið án þess að fara eftir því er hann líkur manni er skoðar sjálfan sig í spegli. 24 Hann skoðar andlit sitt, fer burt og gleymir jafnskjótt hvernig það var. 25 En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því sem hann heyrir heldur framkvæmir það, verður sæll í verkum sínum.
26 Sá sem þykist vera guðrækinn en hefur ekki taumhald á tungu sinni blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt. 27 Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði föður er að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingum þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.

2. Kafli

Mismunið ekki mönnum

1 Bræður mínir og systur,[ þið sem trúið á Jesú Krist, dýrðardrottin okkar, farið ekki í manngreinarálit. 2 Nú kemur maður inn í samkundu ykkar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum. 3 Ef öll athygli ykkar beinist að þeim sem skartklæðin ber og þið segið: „Settu þig hérna í gott sæti!“ en segið við fátæka manninn: „Stattu þarna eða settu þig á gólfið við fótskör mína,“ 4 hafið þið þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með illum hvötum?
5 Heyrið, elskuð systkin.[ Hefur Guð ekki útvalið þá sem eru fátækir í augum heimsins til þess að þeir verði auðugir í trú og erfi ríkið er hann hefur heitið þeim sem elska hann? 6 En þið hafið óvirt hinn fátæka. Eru það þó ekki hinir ríku sem undiroka ykkur og draga ykkur fyrir dómstóla? 7 Eru það ekki þeir sem lastmæla hinu góða nafni sem nefnt var yfir ykkur?