1 Maður sá var sjúkur er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar. … 3 Nú gerðu systurnar Jesú orðsending: „Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur.“ …

Ég er upprisan og lífið

17 Þegar Jesús kom varð hann þess vís að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni. 18 Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm[ þaðan.
19 Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu til að hugga þær eftir bróðurmissinn.
20 Þegar Marta frétti að Jesús væri að koma fór hún á móti honum en María sat heima. 21 Marta sagði við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. 22 En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“
23 Jesús segir við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ 24 Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“
25 Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. 26 Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“
27 Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“