21. kafli

Gætið að fíkjutrénu

29 Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. 30 Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. 31 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.
32 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. 33 Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.

Vakið og biðjið

34 Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki svall og drykkju eða áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður svo að sá dagur komi ekki skyndilega yfir yður 35 eins og snara. En hann mun koma yfir alla menn sem byggja gjörvalla jörð. 36Vakið því allar stundir og biðjið svo að þér megið umflýja allt þetta sem koma á og standast frammi fyrir Mannssyninum.“
37 Á daginn var Jesús að kenna í helgidóminum en fór og dvaldist um nætur á Olíufjallinu sem svo er nefnt. 38 Og allt fólkið kom árla á morgnana til hans í helgidóminn að hlýða á hann.

22. kafli

Svik Júdasar

1 Nú fór í hönd hátíð ósýrðu brauðanna, sú er nefnist páskar. 2 Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér hvernig þeir gætu ráðið Jesú af dögum því að þeir voru hræddir við fólkið.
3 Þá fór Satan í Júdas sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf. 4 Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú. 5 Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir. 6Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim þegar fólkið væri fjarri.