Tækifæri til vitnisburðar

12 En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns. 13 Þetta veitir yður tækifæri til að bera mér vitni. 14 En festið það vel í huga að vera ekki fyrir fram að hugsa um hvernig þér eigið að verjast 15 því ég mun gefa yður orð og visku sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið. 16 Jafnvel foreldrar, systkin, frændfólk og vinir munu framselja yður og sumir yðar munu líflátnir. 17 Og allir munu hata yður af því að þér trúið á mig 18en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar. 19 Verið þrautseigir, með því munuð þér ávinna lífið.

Tákn

20 En þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið að eyðing hennar er í nánd. 21 Þá flýi þau sem í Júdeu eru til fjalla, þau sem í borginni eru flytjist burt og þau sem eru á ekrum úti fari ekki inn í hana. 22 Því þetta eru refsingardagar, þá er allt það rætist sem ritað er. 23 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum því að mikil neyð mun þá verða í landinu og reiði yfir þessum lýð. 24 Menn munu falla fyrir sverðseggjum og verða herleiddir til allra þjóða og framandi þjóðir munu fótum troða Jerúsalem þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.

Mannssonurinn kemur

25 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. 26Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. 27 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. 28 En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“