Guð lifenda
27 Þá komu nokkrir saddúkear, en þeir neita því að upprisa sé til, og sögðu við Jesú: 28 „Meistari, Móse segir okkur í ritningunum að deyi maður kvæntur en barnlaus skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja. 29 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu og dó barnlaus. 30 Gekk þá annar bróðirinn 31 og síðan hinn þriðji að eiga hana og eins allir sjö og létu þeir engin börn eftir sig er þeir dóu. 32 Síðast dó og konan. 33 Kona hvers þeirra verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu þeir átt hana.“
34 Jesús svaraði þeim: „Börn þessarar aldar kvænast og giftast 35 en þau sem þykja þess verð að rísa upp frá dauðum og lifa í komandi veröld kvænast hvorki né giftast. 36 Þau geta ekki heldur dáið framar, þau eru englum jöfn, þau eru risin frá dauðum og eru börn Guðs. 37 En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn er hann kallar Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs. 38 Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda því að honum lifa allir.“
39 Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: „Vel mælt, meistari.“ 40 En þeir þorðu ekki framar að spyrja hann neins.