Leyst úr fjötrum

10 Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. 11 Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið sjúk. Hún var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. 12 Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ 13 Þá lagði Jesús hendur yfir hana og jafnskjótt gat hún rétt úr sér og lofaði Guð.
14 En samkundustjórinn reiddist því að Jesús læknaði á hvíldardegi og mælti til fólksins: „Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna ykkur og ekki á hvíldardegi.“
15 Drottinn svaraði honum: „Hræsnarar, leysir ekki hver ykkar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? 16 En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“ 17 Þegar Jesús sagði þetta urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir en allt fólkið fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum er hann gerði.