Vondir vínyrkjar

9 Og Jesús tók að segja fólkinu dæmisögu þessa: „Maður nokkur plantaði víngarð og seldi hann vínyrkjum á leigu, fór síðan úr landi til langdvala. 10 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að þeir fengju honum hlut af ávexti víngarðsins en vínyrkjarnir börðu hann og sendu burt tómhentan. 11 Aftur sendi hann annan þjón. Þeir börðu hann einnig og svívirtu og sendu burt tómhentan. 12 Og enn sendi hann hinn þriðja en þeir veittu honum einnig áverka og köstuðu honum út. 13 Þá sagði eigandi víngarðsins: Hvað á ég að gera? Ég sendi son minn elskaðan. Má vera þeir virði hann. 14 En er vínyrkjarnir sáu hann báru þeir saman ráð sín og sögðu: Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum við arfinn. 15 Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.
Hvað mun nú eigandi víngarðsins gera við þá? 16 Hann mun koma, tortíma vínyrkjum þessum og fá öðrum víngarðinn.“
Þegar þeir heyrðu þetta sögðu þeir: „Verði það aldrei.“
17 Jesús horfði á fólkið og mælti: „Hvað merkir þá ritning þessi:
Steinninn sem smiðirnir höfnuðu
er orðinn að hyrningarsteini.
18Hver sem fellur á þennan stein mun sundur molast
og þann sem hann fellur á mun hann sundur merja.“

19 Fræðimennirnir og æðstu prestarnir vildu leggja hendur á hann á sömu stundu en óttuðust fólkið. Þeir skildu að hann átti við þá með dæmisögu þessari.

Keisarinn og Guð

20 Þeir höfðu gætur á Jesú og sendu njósnarmenn er létust vera einlægir. Þeir áttu að láta hann tala af sér svo að þeir mættu framselja hann í hendur og á vald landstjórans. 21 Þeir spurðu hann: „Meistari, við vitum að þú talar og kennir rétt og gerir þér engan mannamun heldur kennir Guðs veg í sannleika. 22 Leyfist okkur að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“
23 En hann merkti flærð þeirra og sagði við þá: 24 „Sýnið mér denar. Hvers mynd og nafn er skráð á hann?“
Þeir sögðu: „Keisarans.“
25 En hann sagði við þá: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“
26 Og þeir gátu ekki látið hann tala af sér í áheyrn fólksins en undruðust svar hans og þögðu.