Í samstarfi við Samíska háskólann (Sámi allaskuvla) fögnuðu biblíufélögin í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi nýju, samísku biblíuþýðingunni í Kautokeino helgina 23.-25. ágúst.

Auk mismunandi fræðslustunda um biblíulestur, tungumál og málvísindi samanstóð dagskráin af lestri biblíutexta, söng, tónlist, fyrirlestrum og hátíðarguðsþjónustu.

Sú norður-samíska biblíuþýðing frá 1895, sem áður var við lýði, innihélt texta allt frá áttunda áratug nítjándu aldar og voru þeir orðnir torskildir. Þess vegna er gríðarleg eftirspurn eftir nýju þýðingunni.

„Margt fólk ræður ekki lengur við fyrra ritmálið. Það eru einnig nokkrir staðir í þeirri Biblíu sem eru óskiljanlegir almenningi, og því hefur þurft að þýða yfir á önnur tungumál til þess að skilja innihald setninga. Úr því hefur nú verið bætt. Af þeim sökum er nýja þýðingin ekki aðeins hrein þýðing, heldur er tungumálið einnig nútímalegra þannig að það er okkur skiljanlegt, sem lifum í dag,“ sagði Sara Ellen Anne Eira, leiðtogi Samíska kirkjuráðsins, við kristilegu fréttastofuna Kristelig Pressekontor þegar þýðingin var samþykkt.

Kynningin í Kautokeino hefur einnig mikil áhrif á málsvæði norðursama.

„Í einni fræðslustundinni eru biblíuþýðingar og vinna við fleiri samísk tungumál kynnt; suður-samíska, lulesamíska, enaresamíska og skoltsamíska,“ segir Hans-Olav Mørk, forstöðumaður biblíuþýðingadeildar Hins norska biblíufélags.

Biblíufélagið telur að nýja biblíuþýðingin muni skipa sérstakan sess á meðal samískumælandi kirkjufólks.

Biblían fylgir mönnunum við stóráfanga lífsins, á borð við skírn, fermingu, brúðkaup og útför. Það tungumál sem mætir okkur við stóratburði lífsins öðlast sérstaka merkingu, og snertir svið menningar og samfélags.

 

– – –

Þorgils Hlynur Þorbergsson íslenskaði af heimasíðu Hins norska biblíufélags