18. kafli

Blindur maður

35 Svo bar við, er Jesús nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði. 36 Hann heyrði að mannfjöldi gekk hjá og spurði hvað um væri að vera.
37 Var honum sagt að Jesús frá Nasaret færi hjá.
38 Þá hrópaði hann: „Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!“
39 En þeir sem á undan fóru höstuðu á hann að hann þegði. En hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“
40 Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær spurði Jesús hann: 41 „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“
Hinn svaraði: „Drottinn, að ég fái aftur sjón.“
42 Jesús sagði við hann: „Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér.“
43 Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.

19. kafli

Leita hins týnda og frelsa

1 Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. 2 En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. 3 Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. 4 Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. 5 Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“
6 Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. 7 Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“
8 En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“
9 Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. 10 Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“