Auðugur höfðingi

18 Höfðingi nokkur spurði Jesú: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
19 Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. 20 Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, heiðra föður þinn og móður.“
21 Hann sagði: „Alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
22 Þegar Jesús heyrði þetta sagði hann við hann: „Enn er þér eins vant: Sel allt sem þú átt og skipt meðal fátækra og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér.“ 23 En er hann heyrði þetta varð hann hryggur við enda auðugur mjög.
24 Jesús sá það og sagði: „Hve torvelt er þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki. 25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
26 En þeir sem á hlýddu spurðu: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
27 Hann mælti: „Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð.“

Við yfirgáfum allt

28 Þá sagði Pétur: „Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér.“
29 Jesús sagði við þá: „Sannlega segi ég yður að enginn hefur yfirgefið heimili, konu, bræður, foreldra eða börn vegna Guðs ríkis 30 án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi eilíft líf.“

Allt mun koma fram

31 Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. 32 Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. 33 Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“
34 En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.